Dreifi­kerfi

Veitur reka þrettán hitaveitur; eina á höfuðborgarsvæðinu sem er sú stærsta, fimm á Vesturlandi og sjö á Suðurlandi. Hitaveiturnar þjóna um 65% þjóðarinnar.

Image alt text

Höfuðborgarsvæðið

Lághitasvæðin í Laugarnesi, Elliðaárdal og Reykjahlíð og virkjanirnar tvær, Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun, sjá íbúum á höfuðborgarsvæðinu fyrir heitu vatni. Aukin vinnsla heits vatns í virkjunum hefur gert það kleift að létta tímabundið á vinnslu úr lághitasvæðunum í Reykjavík en þannig má safna forða fyrir aukna notkun á veturna.

Stefnt er að því að auka hlut heits vatns frá virkjunum þannig að hægt verði að nýta jarðhitasvæði á sjálfbæran hátt um fyrirsjáanlega framtíð. Samhliða því er lögð áhersla á það í framtíðaráætlunum hitaveitu að bæta nýtingu á heitu vatni og fullnýta orkustrauma.

Suður- og Vesturland

Ástand flestra lághitasvæða á Suður- og Vesturlandi er gott en þó eru undantekningar þar á. Afla þarf meira heits vatns fyrir Rangárveitur, sem þjóna m.a. þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli, og unnið er að bættri vatns- og gufuöflun í Hveragerði.

Dreifikerfi hitaveitunnar

Heita vatnið kemur úr borholum á höfuðborgarsvæðinu og úr virkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum.

Vatninu úr borholunum er dælt í dælustöðvar og þaðan annað hvort beint til viðskiptavina eða í hitaveitutanka þar sem það hefur viðkomu áður en því er dælt til heimila og fyrirtækja.

Heita vatninu frá virkjunum er dælt í hitaveitutanka á Reynisvatnsheiði áður en það fer til viðskiptavina. Hluti hitaveitukerfisins er uppbyggður þannig að frá notendum rennur vatn sem búið er að nýta til húshitunar til baka í dælustöð. Þar er það notað til að kæla vatnið sem kemur úr borholum eða frá virkjunum en það er oft mjög heitt og kæla þarf það niður í um 80°C.

Hvernig getum við aðstoðað þig?