Heita vatnið sem Veitur dreifa til íbúa á höfuðborgarsvæðinu kemur annars vegar frá virkjunum og hins vegar frá borholum á lághitasvæðum. Á Reykjum í Mosfellsbæ eru nú þegar 22 borholur sem Veitur eiga og reka. Þær sjá hluta höfuðborgarsvæðisins, þar á meðal Mosfellsbæ, fyrir heitu vatni og sér í lagi á veturna. Á sumrin fá lághitasvæðin hvíld því þá dugar vatnið frá virkjunum á háhitasvæðum til húshitunar á svæðinu. Þannig verður nýtingin sjálfbær til framtíðar.
Reykir er lághitasvæði sem er ríkt af heitu vatni. Veitur hafa nú fengið leyfi til að bora allt að sjö holum til viðbótar. Það mat auðlindasérfræðinga Veitna og færustu ráðgjafa að svæðið geti gefið meira en það gerir í dag. Þó er mikilvægt að borholurnar séu dreifðar um svæðið og ekki sé borað of nálægt núverandi holum.
Veitur munu í vetur bora sjö nýjar holur á Reykjum til að auka við getu svæðisins fyrir hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu.
Veitur vinna í góðu samstarfi við landeigendur og framkvæmdirnar hafa takmörkuð áhrif á nágrennið. Hljóð munu berast frá bortækjum til byggðar en ráðstafanir hafa verið gerðar til að takmarka hljóðbærni eins og kostur er. Borun hefst fjærst byggðinni og hljóðbærni mæld til að ráðstafanir séu í samræmi við umhverfisaðstæður á svæðinu.
Umferð vinnutækja verður að mestu frá Þingvallavegi í gegnum Skammadalsskarð og einungis að litlu leyti í gegnum Reykjahverfi. Borarnir eiga ekki að hefta för vegfarenda.
Veitur leggja mikla áherslu á öryggi vegfarenda og starfsfólks og að skilja vel við umhverfið að vinnu lokinni.
Á meðfylgjandi mynd sést hvar borað verður, en bókstafirnir eru eingöngu til hliðsjónar og sýna ekki endanlega tímaröð á borstöðum.
Veitur bora eftir heitu vatni til að tryggja íbúum heitt vatn til framtíðar.
