Tvö ljós­lista­verk valin á Vetr­ar­hátíð 2026

Reykjavíkurborg og Veitur stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2026. Verkin sem urðu fyrir valinu eru ...

Reykjavíkurborg og Veitur stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2026, í nóvember síðastliðnum. Alls bárust 18 tillögur í samkeppnina að þessu sinni. 

Dómnefnd hefur farið yfir innsendar tillögur og liggur niðurstaðan fyrir. Markmið samkeppninnar var að virkja hugvit og nýsköpun sem styður við skapandi og lifandi borg. 

Verkin sem urðu fyrir valinu eru: Ljóslifandi og Í NÝJU LJÓSI. 

Ljóslifandi 

Í umsögn dómnefndar segir: 

„Ljóslifandi er einhvers konar upplifun frekar en hlutur eða skúlptúr á víðavangi. Verkið býður gestum að ganga inn í rými, heim sem blandar saman efni og birtu. Hálfgerður gangur, hálfgerður hljómur, þar sem ljósið sjálft verður leiðarljós á ferðinni. Hvert sjónarhorn breytir upplifuninni. Utan frá er verkið skúlptúr, sterkt, málmkennt og skýrt. Innan frá verður það mjúkt og hreyfanlegt, því ljósið tekur völdin.“ 

Að verkinu standa:  

Sigurður Bogi Ólafsson, ljósahönnuður og tæknimaður, rafeindavirki og nemi í hátækniverkfræði við Háskólann í Reykjavík. 

Gunnlaugur Eiður Björgvinsson, ljósa- og myndtæknimaður, BSc í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. 

Vikar Máni Þórsson, ljósahönnuður. 

 

Í NÝJU LJÓSI 

Í umsögn dómnefndar segir: 

„Verkið er tilraun til að varpa nýju ljósi á birtuna innra með okkur öllum í von um að hún nái að lýsa upp skammdegið. Með verkinu vill listamaðurinn bjóða áhorfandanum að skipta um sjónarhorn í augnablik og horfa á sjálft sig með augum einhvers sem ber hlýju og ást í brjósti til viðkomandi. Með hverju og einu smáatriði í verkinu er reynt að sýna fram á hvernig upplifunin breytist eftir því hvert sjónarhornið er og með því skapa augnablik sjálfsmeðvitundar og mildi, þar sem áhorfandinn finnur fyrir eigin nærveru í nýrri mynd, bókstaflega og táknrænt.“ 

Að verkinu stendur Björt Sigfinnsdóttir, listakona 

Gagnvirkir ljósaskúlptúrar 

Báðar umsóknir þóttu vandaðar og sýndu skýrt að hugmyndirnar væru vel ígrundaðar og raunhæfar til útfærslu. Verkefnin eiga það sameiginlegt að vera frístandandi, gagnvirkir ljósaskúlptúrar sem hægt er að staðsetja á fjölbreyttum stöðum í borgarlandslaginu. 

Dómnefnd telur að bæði verk bjóði upp á einstaka upplifun sem höfði til breiðs hóps áhorfenda, óháð aldri. 

Að mati dómnefndar eru bæði verkin líkleg til að vekja forvitni, hrífa fólk og skapa rými fyrir þátttöku, upplifun og samtal. Þau sameina listræna sýn og tæknilega útfærslu á sannfærandi hátt og teljast því sérstaklega vel til þess fallin að auðga borgarlandslagið. 

Í dómnefndinni sátu: 

  • Salóme Rósa Þorkelsdóttir, borgarhönnuður á Umhverfis- og skipulagssviði. 
  • Sesselja Jónasdóttir, verkefnastjóri List í ljósi   
  • Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri á Listasafni Reykjavíkur 

Veitur eru styrktaraðili  Vetrar hàtíðar

“Við í Veitum óskum vinningshöfum til hamingju og þökkum öllu listafólkinu sem sendi inn tillögur kærlega fyrir þátttökuna. Það er ánægjulegt fyrir okkur að styrkja gerð þessara ljóslistaverka sem lýsa upp myrkasta skammdegið enda vinnum við með rafmagn á hverjum degi og það er okkar hlutverk að tryggja heimilum þessi lífsgæði“ segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.

Við hlökkum til Vetrarhátíðar 2026 dagana 5.- 8. febrúar næstkomandi.