Veitur fá raun­tímasýn á lágspennu­kerfið

Aukið afhendingaröryggi með gögnum frá snjallmælum

Í stjórnstöð rafmagns hafa Veitur lengi haft góða yfirsýn yfir háspennukerfið á veitusvæðunum þar sem fljótt og örugglega er hægt að koma auga á hvar bilun á sér stað. Það gerir stjórnstöð kleift að bregðast hratt við og takmarka straumleysið.

Raunin hefur þó hingað til verið önnur í lágspennukerfinu sem tengja heimilin og fyrirtækin beint. Þar hafa Veitur þurft að treysta á símtöl frá viðskiptavinum sem tilkynna rafmagnsleysi í neyðarsímann.

Nú hafa Veitur tekið í notkun nýja tæknilausn sem veitir stjórnstöð rafmagns rauntímasýn á hvar bilun er staðsett niður á götur og heimili sem er mikil framför frá því sem áður var.

Kerfið sendir boð á stjórnstöð

Stjórnstöð rafmagns sér hvar bilun er líkleg út frá því hvort snjallmælar senda gögn eða ekki. Það tekur örfáar mínútur fyrir mælinn að senda skilaboð í stjórnstöð um að eitthvað sé að. Stjórnstöð getur þá strax brugðist við og kallað út viðgerðarflokk Veitna. Það styttir viðbragðstíma og þar með rafmagnsleysið verulega. Stjórnstöð sér eingöngu hvort snjallmælir sendir gögn eða ekki, en hefur ekki aðra sýn á snjallmæli viðskiptavina.

Veitur nýta sér nýsköpun og tækni til að bæta þjónustu við viðskiptavini sem treysta á þessa nauðsynlegu innviði sem rafmagnið er.