Ómiss­andi innviðir – undir­staða öryggis og viðnáms samfé­lagsins

Skuggi ófriðar hvílir yfir heiminum og hefur öryggisumhverfi Evrópu  tekið grundvallarbreytingum  á síðustu árum. Í þessari nýju heimsmynd birtast ógnir ekki eingöngu í formi hernaðarlegra átaka ...

Skuggi ófriðar hvílir yfir heiminum og hefur öryggisumhverfi Evrópu  tekið grundvallarbreytingum  á síðustu árum. Í þessari nýju heimsmynd birtast ógnir ekki eingöngu í formi hernaðarlegra átaka í hefðbundnum skilningi heldur sem sambland netárása, skemmdarverka, njósna, upplýsingaóreiðu og markvissra árása gegn ómissandi innviðum.

Orku- og veituinnviðir eru þar meðal fyrstu skotmarka, enda undirstaða stöðugleika samfélagsins og daglegs lífs almennings.

Íslenska ríkið hefur brugðist við með ábyrgum hætti  með nýrri varnar- og öryggisstefnu og aukinni áherslu á viðnámsþol samfélagsins. Þar er sérstaklega horft til ómissandi innviða – raforku, vatnsveitna, hitaveitna, fráveitu, fjarskipta og stafrænna kerfa – sem mynda samtengt kerfi þar sem veikleiki á einum stað getur haft keðjuverkandi áhrif á allt samfélagið.


Árásir og skemmdarverk á orku-og veituinnviði

Á undanförnum árum hefur ítrekað verið ráðist að orkuinnviðum í Evrópu, bæði í tengslum við innrás Rússa í Úkraínu og víðar. Slíkar árásir eru ekki tilviljunarkenndar heldur hluti af markvissum aðgerðum þar sem reynt er að lama samfélög, grafa undan trausti og skapa óöryggi og ótta.

Til að líta okkur enn nær má nefna að skemmdarverk og tilraunir til mengunar eða truflunar vatnsveitna hafa aukist á Norðurlöndum á síðustu misserum. Slíkt undirstrikar að lönd þar sem friður ríkir eru ekki undanþegin slíkum ógnum.

Þá er ótalin sú ógn og álag sem breytingar á veðurfari, náttúruhamfarir og loftslagsbreytingar hafa á innviði samfélaga. Öryggi innviða snýst því ekki aðeins um varnir gegn manngerðum ógnum heldur einnig um aðlögun að sífellt ófyrirsjáanlegra umhverfi og náttúruöflum.

Ómissandi innviðir eru öryggismál

Veitur og önnur fyrirtæki sem starfa á sviði innviðauppbyggingar telja nauðsynlegt að forgangsröðun fjárfestinga endurspegli þessa breyttu stöðu. Öryggi raforkukerfa, vatnsbóla, hitaveitna og stafrænna kerfa er ekki lengur eingöngu rekstrarlegt viðfangsefni heldur hluti af öryggismálum landsins.

Orka, vatn, fráveita, fjarskipti og stafræn kerfi mynda grunnstoðir samfélagsins. Truflun á einni stoð getur haft víðtæk áhrif á heilbrigðiskerfi, samgöngur, atvinnulíf og daglegt líf fólks. Því þarf að horfa á innviðakerfið í heild, greina veikleika og byggja upp viðnámsþol áður en áföllin verða, svo samfélagið hafi getu til þess að halda grunnþjónustu gangandi þegar á reynir.

Mikilvægi samstarfs

Innan ramma varnarmála og viðnámsþols flokkast ómissandi innviðir sem eru ýmist í höndum opinberra aðila eða einkaaðila. Ríkisstjórnin hefur boðað aukið samstarf við þessa aðila, enda ljóst að öryggi innviða verður ekki tryggt nema allir sem bera ábyrgð á þeim sitji við sama borð.

Orku- og veitufyrirtæki gegna þar lykilhlutverki. Þau búa yfir þekkingu, gögnum og reynslu sem er ómetanleg þegar kemur að áhættugreiningu, forvörnum og viðbragðsáætlunum.

Samorka er tilbúin til víðtæks samstarfs við stjórnvöld, sveitarfélög og aðra hagaðila um að styrkja þennan málaflokk enn frekar.

Megum ekki sofna á verðinum

Veitur og önnur innviðafyrirtæki standa frammi fyrir þeirri áskorun að samræma fjárfestingar, rekstur og sífellt strangari öryggiskröfur í breyttu umhverfi. Við þurfum markvisst að færa fókus frá viðbrögðum yfir í forvarnir, frá skammtímahugsun yfir í langtímasýn.

Forgangsröðun fjárfestinga þarf að taka mið af langtímaáhættu og þeirri staðreynd að innviðir eru ein af fyrstu varnarlínum samfélagsins. Við megum ekki sofna á verðinum.

Langtímaverkefni fyrir samfélagið allt

Markmiðið er ekki aðeins að bregðast við áföllum heldur að byggja upp öruggt, sjálfbært og innviðakerfi sem einkennist af seiglu til framtíðar. Þetta er langtímaverkefni sem krefst skýrrar forystu, stöðugrar fjárfestingar og trausts samstarfs milli hins opinbera og þeirra sem reka og viðhalda innviðum landsins.

Ómissandi innviðir verða að vera eitt af mikilvægustu verkefnum nýs árs. Við óskum eftir víðtæku samstarfi um þetta brýna samfélagsmál – því öryggi innviða er öryggi okkar allra.

Sólrún Kristjánsdóttir
framkvæmdastýra Veitna og stjórnarformaður Samorku