Vatn og viðnáms­þróttur þess í forgangi hjá ESB

Mikil þátttaka var í „Water Resilience Forum,“ ráðstefnu á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel þann 8. desember.

Rætt var um hvernig tryggja megi íbúum Evrópu aðgang að nægu og góðu vatni eins og lesa má í frétt Samorku um málið.

Umhverfismálastjóri Evrópusambandsins, Jessika Roswall, lagði áherslu á að vatnið væri eitt af helstu forgangsmálum framkvæmdastjórnarinnar. Í sama streng tók Teresa Ribera, varaforseti og benti á hvernig vatn væri einn af hornsteinum í hreinni iðnaðaruppbyggingu í álfunni.

Veitur styðja þessar áherslur ESB og fagna því að vatn og viðnámsþróttur þess sé sett í forgang. Meðal lykilhlutverka Veitna er að tryggja stærstum hluta höfuðborgarsvæðisins hreint vatn og vernda vatnsbólin fyrir komandi kynslóðir. Mörg krefjandi verkefni eru fram undan á þessu sviði eins og fjallað var um á ráðstefnunni. Það á líka við hér á landi og í okkar starfsemi.

Fjallað var um hvernig flóð, þurrkar og vatnsskortur væru meðal áskorana í Evrópu, nokkuð sem yrði að skoða í ljósi loftslagsbreytinga. Einnig var rætt um að nýta þyrfti vatnsauðlindir okkar með skilvirkari hætti. Gestir á ráðstefnunni heyrðu líka reynslusögu frá Svíþjóð þar sem vatnsból mengaðist með alvarlegum afleiðingum fyrir íbúa.

Ráðstefnan „Water Resilence Forum“ er haldin í framhaldi af stefnumótun Evrópusambandsins um viðnámsþrótt vatns „Water Resilence Strategy.“. Lög og reglur sem verða til á vettvangi Evrópusambandsins hafa áhrif á starfsumhverfi íslenskra veitufyrirtækja.

Hvernig getum við aðstoðað þig?