Vatns­veitan á afmæli í dag

Reykvíkingar fengu hreint og heilsusamlegt vatn úr Gvendarbrunnum í fyrsta sinn fyrir 116 árum.

Einu sinni var vatn sótt í brunna í Reykjavík

Í upphafi síðustu aldar sóttu Reykvíkingar vatnið sitt í brunna í bænum. Vatnið var þó bæði ónógt og óheilsusamlegt. Aðgengi bæjarbúa að hreinu vatni tók á sig alveg nýja mynd þegar ákveðið var að leggja vatnsveitu í bænum.

Vatnið var í fyrstu sótt í Elliðaárnar en síðar Gvendarbrunna

Árið 1908 var hafist handa um að leggja vatnspípur um Reykjavíkurbæ og Vatnsveita Reykjavíkur stofnuð formlega 16. júní 1909. Þá var vatninu hleypt á kerfið úr Elliðaám, en það var til reynslu.

Upphafsdagur vatnsveitu í Reykjavík er þó jafnan talinn 2. Október 1909 þegar leiðsla frá Gvendarbrunnum var tekin í notkun. Með framkvæmdunum fengu Reykvíkingar greiðan aðgang að nægu hreinu vatni og fljótlega margfaldaðist vatnsneysla þeirra.

OR89204

Frá Gvendarbrunnum

Vatnsnotkun margfaldaðist og heilsan batnaði

Fljótlega eftir að vatnið frá Gvendarbrunnum fór að renna til íbúa í Reykjavíkurbæ jókst vatnsneysla íbúa til muna. Þá fengu þau í fyrsta sinn hreint og heilsusamlegt vatn og notkun fór úr 18 lítrum á sólarhring í 200 lítra á hvern íbúa.

Samhliða lagningu vatnslagna ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur að leggja holræsi í allar götur.

Í sameiningu leiddu framkvæmdir við vatnsveitu og fráveitu til betra heilsufars bæjarbúa. Þá var líka komið nægt vatn til brunavarna, steinsteypuframkvæmda og iðnaðar á borð við fiskiðnað og matvælaframleiðslu.

Hreint vatn er ekki heppni

Í hlaðvarpi Samorku, Lífæðar landsins, má hlusta á Lovísu Árnadóttur hjá Samorku ræða við Hrefnu Hallgrímsdóttur forstöðumanneskju vatnsmiðla hjá Veitum um mikilvægi þess að standa vörð um neysluvatnið.

Lífæðar landsins: Hreint vatn er ekki heppni.