Orku­skipti og uppbygging við Sunda­höfn

Veitur vinna þétt með atvinnulífinu til að tryggja að orkuskiptin gangi snurðulaust fyrir sig

Veitur eru í viðamiklum framkvæmdum við lagningu háspennustrengja og byggingu nýrrar aðveitustöðvar sem verður hryggjarstykki í orkuskiptum á sjó og landi. Stöðin færir stórum nýjum hverfum rafmagn og mun tryggja iðnaði og skipaumferð við Sundahöfn næga raforku í orkuskiptin. Framkvæmdirnar krefjast útsjónarsemi og nýrra lausna eins og starfsfólk Veitna lýsir í meðfylgjandi myndbandi.  

Veitur og Faxaflóahafnir undirrituðu samning 2024 um afhendingu á gríðarlegu magni afls, 16 MW, en til samanburðar er það svipað og öll rafmagnsnotkun á Akureyri. Fleiri fyrirtæki við Sundahöfn hafa óskað eftir miklu afli, m.a. fyrir hleðslugarð rafknúinna strætisvagna og vinnuvéla.  

Að tengingu lokinni munu Faxaflóahafnir geta tengt öll skip sem leggja að höfn við rafmagn og dregið þannig úr mengun við Faxaflóa.

Mikið afl þarf góðar tengingar

Afhending á svo miklu afli krefst tenginga við háspennt rafmagn í gegnum aðveitustöð en þær eru ekki til staðar á iðnaðarsvæðinu við Sundahöfn.

Í aðveitustöðvum er tekið við orkunni á hæsta spennustigi sem Veitur reka, 132.000 volt (132 kV). Flutningskerfi Veitna fyrir slíka spennu má líkja við stofnbrautir í gatnakerfi, t.d. Miklubraut. Nýja stöðin mun tengjast hringkerfi rafmagns við gatnamót Kringlumýrarbraut og Borgartún annars vegar og hins vegar við Glæsibæ.

Nýjar umhverfisvænar lausnir eru hluti af okkur

Stefna Veitna hvetur starfsfólk til sífelldrar þekkingaleitar, að nýjum umhverfisvænum lausnum, sem skapa virði fyrir samfélag nútímans og framtíðar.

Sérfræðingar rafveitu nýttu sér þekkingu og reynslu annarra í faginu og því var ákveðið að nota steypta rörastokka. Aðferðin gerir Veitum kleift að minnka skurðsvæðið um 60-70% og endurnýta á staðnum mikið af því efni sem grafið er upp.

Steyptir rörastokkar hafa verið notaðir víða í Evrópu og gera verktökum kleift að vinna í þéttri byggð án þess að loka þurfi heilu götunum. Lagðir eru um 50 m í einu og strengir dregnir í gegnum rörin í heilu lagi eftir að framkvæmd lýkur. Nánari útlistun á því hvernig steyptir rörastokkar eru í framkvæmd má finna í frétt Veitna frá því í lok maí 2025.

Kolefnisspor framkvæmdarinnar er til skamms tíma það sama og með hefðbundinni aðferð en langtímaáhrifin eru mun minni þar sem enga nýja skurði þarf að grafa þó fleiri rafstrengir bætist við síðar í rörin.

Lágmörkun á framkvæmdasvæði

Steypta rörastokka er hægt að leggja í hvaða röð sem er þar sem strengir eru dregnir í rörin að lagningu lokinni. Við Holtaveg voru stokkar lagðir í sumar, enda gróið hverfi með vegfarendum á öllum aldri og á margs konar fararskjótum. Þar var lögð áhersla á að ljúka framkvæmdum nærri skólanum áður en börnin hefðu nýtt skólaár.

Með eldri aðferðum hefði í sumar þurft að loka Holtavegi nánast í heild sinni til að leggja strenginn en í stað þess voru 50 m kaflar kláraðir í einu með takmörkuðum áhrifum á umferð um þetta gróna hverfi.


Nokkrar staðreyndir um verkefnið
Stærð A13: 1200 m2
Aflspennar: 3
Heildaraflgeta: 60 MVA
Spennustig: 132kV, 33kV og 11 kV
Magn SF6 gass 132 kV rofabúnaðar: Ekkert
Lengd 132kV strengja: 9.090 m
Lengd 33 kV strengja: 6600 m

Hönnun rörastokka: Lota Verkfræðistofa
Hönnun A13: T.ark
Hönnun og ráðgjöf rafbúnaðar: Verkís
Lagning rörastokka áfangi 1: PK Verk
A13 uppbygging: Alefli
Bakhjarl verkefnis: Ragnar Örn Davíðsson
Verkefnastóri A13 byggingar: Sigríður Sif Magnúsdóttir
Verkefnastjóri rörastokka, háspennustrengja og háspennubúnaðar: Guðmundur S Sigurgeirsson