Verðlaun í stærstu þjónustukeppni Evrópu, European Contact Centre & Customer Service Awards (ECCCSA), eru veitt í ýmsum flokkum og í fyrra hlutu Veitur brons í flokknum „Besta nýja þjónustusviðið.“
Nú erum við aftur komin í úrslit og það í flokknum „Besta nýting gagna og greininga“ (e.Best use of Data & Insights) fyrir nýtingu okkar á gögnum og líkönum. Með okkur í úrslitum í þessum flokki eru fyrirtæki á borð við Bupa, British Airways og Sage.
„Við erum virkilega stolt af þessum árangri okkar annað árið í röð. Tilnefningin er viðurkenning út af fyrir sig á nýtingu okkar á gögnum og líkönum til að sjá inn í ósýnilega innviði og taka betri ákvarðanir. Þannig tryggjum við að þjónustan við viðskiptavini sé bæði áreiðanleg og framsýn“ segir Sigríður Sigurðardóttir, forstöðukona Stafrænnar umbreytingar hjá Veitum.
„Í stefnu Veitna er framsækin þjónusta sett í forgang og við skilgreinum okkur sem þjónustufyrirtæki fyrst og fremst“ segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna. „Við nýtum nýsköpun og tækni til að geta veitt bestu þjónustuna. Það er bæði mikill heiður og viðurkenning að komast í úrslit í ECCCSA og allt frábæra starfsfólkið hjá Veitum á þátt í því“
Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn þann 25. nóvember í London, en ECCCSA er einmitt 25 ára í ár.
Við erum himinlifandi yfir að vera aftur komin í úrslit í stærstu þjónustukeppni Evrópu og í þetta sinn fyrir nýtingu gagna í þágu viðskiptavina.
Veitur vekja athygli á svikaskilaboðum þar sem viðtakendur eru beðnir að smella á hlekk til að velja raforkusala eða staðfesta þjónustu.