Ört stækkandi samfélag kallar á miklar nýframkvæmdir og viðhald í hitaveitu til að mæta aukinni orkuþörf. Til að tryggja komandi kynslóðum örugga afhendingu á heitu vatni er óhjákvæmilegt að gera breytingar á gjaldskrá hitaveitu til að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum og tryggja að íbúar og fyrirtæki á öllu veitusvæðinu fái heitt vatn með öruggum hætti í dag og til framtíðar.
Breyting á gjöldum hitaveitu
Þann 1. desember 2025 taka gildi breytingar á gjöldum vegna hitaveitu sem hafa í för með sér að hitaveitureikningur 100 m2 íbúðar í þríbýli, svo dæmi sé tekið, hækkar alls um 756.-kr að meðaltali á mánuði. Þar af eru 322.-kr fyrir fast gjald hitaveitu, og 434.- kr fyrir notkunargjald.
Miðað við 10 íbúða fjölbýli er breytingin að meðaltali hækkun um 1.280 krónur á mánuði eða 846 kr. fyrir fast gjald og 434 kr. fyrir notkunargjald.
Reikningar eru breytilegir milli mánaða þar sem rukkað er fyrir raunnotkun, en þeir eru hærri að vetri og lægri að sumri. Notkunargjaldið hækkar um 7% hjá öllum. Hækkun fasta gjaldsins fer eftir stærð húsnæðis og tengingum.
Nánar hér https://www.veitur.is/verdskrar.
Þótt verðskrárbreytingin taki gildi 1. desember sjá viðskiptavinir ekki reikninginn sinn fyrir desembermánuð fyrr en í janúar á nýju ári.
Gjöld fyrir rafmagnsdreifingu, kalt vatn og fráveitu haldast óbreytt.
Af hverju erum við að hækka?
Stór verkefni til að mæta aukinni orkuþörf
„Ljóst er að ráðast þarf í kostnaðarsamar fjárfestingar og framkvæmdir á næstu árum til að svara vaxandi þörf samfélagsins fyrir heitt vatn,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna. „Gert er ráð fyrir þúsundum nýrra íbúða á okkar þjónustusvæði sem kallar á stækkun flutningskerfisins, öflugt viðhald og markvissa jarðhitaleit til að tryggja örugga afhendingu á heitu heitt vatni til íbúa og fyrirtækja. Því er nauðsynlegt að gera þessa verðskrárbreytingu núna til þess að mæta þessum framkvæmdum og fjárfestingum svo öll fái notið þessara lífsgæða,“ segir Sólrún.
Fjárfestingaáætlun hitaveitunnar gerir ráð fyrir 8-9 milljörðum króna í ár og alls um 55-60 milljörðum króna til ársins 2030. Um er að ræða nauðsynlega uppbyggingu og endurnýjun sem tryggir öryggi og afhendingu til framtíðar.
Fjárfestingar Veitna gera ráð fyrir að standa undir áætlunum um stækkun veitusvæðisins, endurnýjun eldri dreifi- og stofnkerfa, uppbyggingu nýrra þéttingarsvæða, jarðhitaleit til að standa undir vexti og auknar sjálfbærnikröfur svo eitthvað sé nefnt.

