Brynja hefur leitt breytingar og stefnumótun á þjónustu Veitna undanfarin ár sem forstöðukona Þjónustu með sæti í framkvæmdastjórn. Vatnsmiðlar er umfangsmesta starfsemin hjá Veitum og mun Brynja leiða mikilvæg samfélagsleg verkefni til að tryggja íbúum og fyrirtækjum á stærstum hluta höfuðborgarsvæðisins aðgengi að hita, heilnæmu vatni og fráveitu.
Brynja er með M.Sc.gráðu í rekstrarverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet og B.Sc.gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað hjá Veitum og Orkuveitunni undanfarin þrjú ár. Áður starfaði hún hjá Össuri sem ferlastjóri og hjá Novo Nordisk í Kaupmannahöfn á fjármála- og framleiðslusviði.
„Ég er full tilhlökkunar að takast á við krefjandi og spennandi áskoranir sem felast í nýju hlutverki. Það felst mikil ábyrgð í að stýra jafn stórum og mikilvægum verkefnum og Veitur fást við á hverjum degi og hafa áhrif á samfélagið okkar. Ég veit fyrir víst að hjá Veitum starfar frábært fagfólk með metnað til framfara og saman stefnum við á að byggja upp kerfið okkar svo það stækki með samfélaginu og að vernda auðlindarnar fyrir komandi kynslóðir,“ segir Brynja.
Veitur er framsækið þjónustufyrirtæki sem tryggir aðgengi að rafmagni, hita, vatni og fráveitu. Veitur er dótturfyrirtæki Orkuveitunnar og þjónustar ríflega 70% landsmanna. Veitusvæðið er að mestu á höfuðborgarsvæðinu, en einnig víða á Suður- og Vesturlandi. Lagnir og strengir eru alls 9.000 km að lengd, sem samsvarar vegalengdinni frá Reykjavík til Shanghai. Veitur hafa frumkvæði að sjálfbærum lausnum með árangur samfélagsins að leiðarljósi.


Brynja Ragnarsdóttir er ný forstöðukona Vatnsmiðla hjá Veitum. Hún ber ábyrgð á starfsemi og rekstri hitaveitunnar, vatnsveitunnar og fráveitunnar.

Vatnsvernd og áskoranir við vatnsöflun, öryggi og áfallaþol vatnsveituinnviða var til umfjöllunar á opnum fundi Samorku, Verndum vatnið.