Fyrstu kuldatíð fylgja áskor­anir í heita vatninu

Með aukinni notkun fara agnir, sem eru náttúrulegur fylgifiskur heita vatnsins, af stað.

Veitur finna vel fyrir kuldatíð og þá sérstaklega þegar notkun á heitu vatni fer að aukast á haustin. Þessi vika er engin undantekning og notkun hefur aukist verulega undanfarna daga. Þegar það gerist þá steymir meira vatn um dreifikerfið okkar eftir sumarið. Þá hreinsast eðlilegar útfellingar á lögnum innan úr þeim og fara af stað. Heita vatninu fylgja einnig náttúrulegar agnir frá uppsprettunni. Þess vegna eru síur í öllum húsum sem grípa agnirnar til að eingöngu vatn renni inn til fólks. Smám saman geta síurnar þó stíflast og þá getur þrýstingur fallið. Veitur vilja fá að vita af slíku til að hægt sé að bregðast við.

Skipulagðar forvarnir

Veitur fara skipulega og markvisst til að skola úr lögnum víða á höfuðborgarsvæðinu til að hreinsa agnir áður en þær berast heim til fólks. Hverfi þar sem þessar áskoranir í heita vatninu eru algengastar ganga fyrir með slíka útskolun. Það kemur þó aldrei alfarið í veg fyrir að síur fyllist hjá fólki eða þrýstingur falli tímabundið.

Veitur hafa undanfarna vetur einnig sett upp stórar síur á dreifilagnir í hverfum þar sem þessi eðlilegi, en oft óþægilegi, fylgifiskur heita vatnsins er hve fyrirferðamestur. Sjá meira um það hér.

Látið okkur vita

Við hjá Veitum viljum fá að vita af því þegar viðskiptavinir okkar finna minni þrýsting á heita vatninu inn til sín. Við sinnum öllu slíku eins hratt og kostur er og gerum það sem við getum til að bæta þrýstinginn. Ef þrýstingur er áberandi minni en vanalega hringdu þá í neyðarsíma Veitna: 516 6161.

Veitur leita allra leiða til að tryggja að lífsgæðin sem heita vatnið er renni óhindrað til allra.

Hvernig getum við aðstoðað þig?