Met slegið í raforku­notkun

Veitur dreifa rafmagni á höfuðborgarsvæðinu og í vikunni mældist mesta rafmagnsnotkun í dreifikerfi okkar frá upphafi.

Afltoppurinn náði þá 215,3 megavöttum og er þá miðað við meðalálag einnar klukkustundar. Fyrra met upp á 212,9 megavött hafði staðið óhaggað frá desembermánuði 2008.

Raforkunotkun nær hámarki þegar saman fara mikil umsvif í samfélaginu, skammdegi og kuldi. Orkuskipti eru stór þáttur í því að notkunin hefur aukist en Veitur styðja dyggilega við þau í sinni starfsemi.

Veitur dreifa rafmagni til  heimila og fyrirtækja  í Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi,  Mosfellsbæ, hluta Garðabæjar og á Akranesi.

Samdráttur í rafmagnsnotkun eftir hrun og í Covid 

Frá upphafi Rafmagnsveitu Reykjavíkur fram til ársins 2008 mátti sjá veldisvöxt í raforkunotkun en eftir 2008 lögðust saman margir þættir til að draga úr notkun. Bankahrun með minnkuðum umsvifum, umbreyting lýsingar frá glóperum yfir í LED og sparneytnari heimilistæki svo helstu þættir séu nefndir. Jafnvel eftir að samfélagið náði sér á strik aftur með tilheyrandi  fólksfjölgun  þá varð ekki samsvarandi aukning í rafmagnsnotkun. Notkun á hvern íbúa lækkaði umtalsvert og mátti sjá raforkunotkun í grónum íbúðahverfum fara niður um tugi prósenta. 

Annað skeið samdráttar í raforkunotkun hófst í nóvember 2018 og í gegnum byrjun heimsfaraldurs allt þar til á vormánuðum 2021 þegar varð verulegur viðsnúningur og raforkunotkun tók að aukast hratt fram til dagsins í dag. 

Image alt text

Orkuskipti hafa mikil áhrif

Stór hluti skýringarinnar á aukinni rafmagnsdreifingu eru orkuskiptin en einnig fólksfjölgun, meiri umsvif í samfélaginu og mikill ferðamannastraumur.  Reikna má með að lítil inneign sé enn eftir í frekari sparnaði heimilistækja og lýsingar. Hvað varðar orkuskiptin hafa Veitur  m.a. stutt við uppbyggingu hverfa-, heima- og hraðhleðsla, unnið að landtengingu skemmtiferðaskipa og stutt fjölda fyrirtækja í sínum orkuskiptum. 

Raforkudreifing mun aukast til muna

Ef við skyggnumst inn í framtíðina þá sýna einfaldir  útreikningar að með orkuskiptum og  áframhaldandi fólksfjölgun má reikna með tvöföldun í raforkudreifingu hjá Veitum á næstu 20-30 árum. Slík aukning mun verða mikil áskorun en felur jafnframt í sér verulegan samdrátt í notkun jarðefnaeldsneytis, loftslaginu til góða. 

Image alt text
Höfundur er Kári Hreinsson, sérfræðingur í nýsköpun og tækniþróun hjá Rafveitu Veitna.

Hvernig getum við aðstoðað þig?