Miklar kröfur eru gerðar til gæða vatnsins og spilar íslensk náttúra og vernd hennar lykilhlutverk í því að tryggja heilnæmt neysluvatn. Veitum er treyst fyrir því að færa stórum hluta íbúa landsins neysluvatn en til þess að svo megi vera um alla framtíð þurfum við að vernda þessa mikilvægu auðlind.
Víða í heiminum er erfitt og kostnaðarsamt að færa íbúum heilnæmt drykkjarvatn og ekki mörg lönd sem geta afhent nær ómeðhöndlað neysluvatn í hæsta gæðaflokki líkt og við gerum. Það þarf þó að fara gætilega til að viðhalda góðu og heilnæmu neysluvatni og horfa til framtíðar.
Vatnsverndarsvæði eru skilgreind í kringum vatnsbólin sem við sækjum vatnið í og er skilgreining þeirra mikilvægt skref til að tryggja vatnsgæði. Vatnsverndarsvæði fyrir vatnsból höfuðborgarsvæðisins voru fyrst skilgreind árið 1967 og síðan staðfest 1969. Afmörkun þeirra hefur síðan verið endurskoðuð nokkrum sinnum. Vatnsverndarsvæði setja ramma utan um vatnstökusvæði og hvernig á að umgangast þau og markvisst er unnið að forvörnum og eftirliti til að tryggja vatnsgæði.
Helsta ógnin við vatnsverndarsvæðin er að þau mengist, svo sem með olíu, skólpi, rusli eða öðrum mengandi efnum sem geta komist gegnum jarðlög í neysluvatnið sem rennur neðanjarðar í vatnsbólin. Vatnsbólin liggja gjarnan í opnum og sprungnum hraunum þar sem mengun getur átt greiða leið niður í grunnvatnið.
Umferð vélknúinna farartækja um vatnsverndarsvæði, byggð og ýmiss konar starfsemi á og í nágrenni vatnsverndarsvæða getur ógnað vatnsgæðum. Vatnsvernd felur því í sér takmörkun á umferð og athöfnum innan vatnsverndarsvæða og hefur þannig áhrif á æskilega landnýtingu innan svæðanna en útivist og vatnsvernd geta sannarlega farið vel saman. Í ljósi mikilvægi heilnæms neysluvatns þá eru þær takmarkanir sem settar eru innan vatnsverndarsvæða málamiðlun sem við verðum að vera samtaka um.
Meðvitund og samtakamáttur almennings um mikilvægi varfærnislegrar umgengni um vatnstökusvæði er lykilatriði í samstilltu átaki í nafni vatnsverndar. Látum það verða gjöf okkar til samfélagsins og komandi kynslóða á degi íslenskrar náttúru sem haldinn er ár hvert þann 16. september.
Ný lausn til að hreinsa náttúruleg óhreinindi úr heita vatninu
Evrópski þróunarbankinn (CEB) hefur samþykkt að veita Orkuveitunni 75 milljóna evra lán til að byggja upp veitukerfi og efla viðnám þeirra gegn loftslagsvá og náttúruhamförum.