Nýsköpun, list og nýting varma

Nemar úr Listaháskólanum gera umhverfið notalegra með nýtingu afgangsvarma frá Veitum.

Fjórir sumarstarfsmenn frá Listaháskólanum unnu í sumar með Veitum að nýsköpun í nýtingu afgangsvarma. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og frumgerðin var opnuð við gömlu kyndistöðina að Bæjarhálsi föstudaginn 5. september.

Bakrás hitaveitukerfisins tekur við heitu vatni eftir húshitun. Það er að jafnaði um 35 °c og það er varmi sem nýtist illa og fer of oft beint í fráveituna og út í sjó.

Bætt nýting- betri svæði

Verkefnið Tengja snerist að betri nýtingu afgangsvarma í bakrás hitaveitukerfis höfuðborgarsvæðisins til að hita upp bekki eða aðra hagnýtanlega skúlptúra sem ætlaðir eru fyrir opin almenningssvæði.

Markmiðið er að nýta betur jarðvarmann sem við virkjum til húshitunar, skapa aðstöðu fyrir samveru almennings á opnum svæðum með hlýlegum áningastöðum fyrir fólk sem stundar útiveru sér til heilsubóta í kuldanum á Íslandi.

Hönnun bekkjanna miðar að því að varpa ljósi á og gera sýnileg veitukerfin sem annars eru hulin neðanjarðar. Frekari nýting á varma jarðhitavatns er einnig vel til þess fallin að kæla vatnið niður áður en það er losað út í náttúruna og lágmarka þannig neikvæð áhrif á vistkerfið.

OR89571

Mynd: Heimir Tryggvason og Tumi Valdimarsson sitja á hlýjum bekknum.

„Að vinna með listamönnum sem nálgast hlutina úr annarri átt en við raungreinafólkið er ómetanlegt inn í svona verkefni“ segir Heimir Tryggvason, sérfræðingur í nýsköpun og tækniþróun hjá Veitum. „Við höfum séð í þessu samstarfi ákveðna hugmyndafræði sem við þurfum að beita meira til að ná betri árangri í nýtingu auðlinda fyrir náttúru og samfélag.“

„Það eru mikil forréttindi að fá að fylgja svona verkefni eftir og fá fullan stuðning til þess“ segir Tumi Valdimarsson, meistaranemi í Hönnun, umhverfi og áskoranir í LHÍ „og sérstaklega að það voru engar hömlur á sköpuninni. Við fengum að fylgja innsæinu með ráðgjöf og innsýn sérfræðinga víða í orkugeiranum.“

Veitur og nemarnir eru spennt fyrir skapandi lausnum á frekari nýtingu bakvatnsins víðar á höfuðborgarsvæðinu þannig að það þjóni íbúum á svæðinu sem best.

Tengja er verkefni sem endurspeglar vel kjarnann í stefnu Veitna um nýsköpun, frumkvæði og öflugt samstarf.

Hvernig getum við aðstoðað þig?