Sólrún í stjórn Alþjóða jarð­hita­sam­bandsins (IGA)

Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna hefur verið kosin í stjórn Alþjóða jarðhitasambandsins, IGA (International Geothermal Association). Hún mun sitja í stjórn félagsins næstu þrjú árin.

„Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum til að bæta lífsgæði og stuðla að því að fólk út um allan heim hafi aðgang að hreinni og hagkvæmri orku,“ segir Sólrún. „Orku- og loftlagsmálin eru brýnustu áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir og það þarf að grípa til metnaðarfullra aðgerða til að takast á við þær. Til þess að hægt sé að knýja fram raunverulegar breytingar skiptir miklu máli að alþjóðleg samvinna sé góð og að við deilum reynslu okkar á milli. Það er því óneitanlega spennandi að verða hluti af stjórn Alþjóða jarðhitasambandsins og taka þátt í metnaðarfullu starfi þeirra af fullum krafti.“

Alþjóða jarðhitasambandið, IGA, hefur það að markmiði að efla þekkingu á jarðhita og stuðla að hagkvæmri jarðhitanýtingu um allan heim. Sambandið styður meðal annars við rannsóknir og þróun á jarðhitanýtingu með því að efla samskipti og samvinnu sérfræðinga, vísindafólks, fyrirtækja, stofnana og stjórnvalda. Heimsþing IGA er stærsti alþjóðlegi viðburðurinn á sviði jarðhita í heiminum. Ráðstefnan var haldin í Reykjavík árið 2021 og verður næst haldin í Peking í Kína í september.

Tveir Íslendingar voru í framboði til stjórnar IGA að þessu sinni og var tilkynnt um úrslit kosninganna 18. apríl. Auk Sólrúnar var Dr. Bjarni Pálsson kjörinn í stjórn.

Image alt text

Hvernig getum við aðstoðað þig?