Síðdegis í gær var stjórnstöð rafmagns hjá Veitum ásamt Landsneti við vinnu að færa til álag á stærstu háspennustrengjum í dreifikerfi Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Það er gert reglulega til að tryggja tengingar við öll hverfi. Í þetta sinn var verið að tengja aftur aðveitustöð í Hnoðraholti sem hafði verið í viðhaldi.
Við þessar eðlilegu tilfærslur sló út í tengivirki og sá galli hefur nú þegar verið lagfærður. Rafmagn kom aftur innan örfárra mínútna hjá langflestum enda ávallt lagt kapp á að tryggja rafmagn til notenda á sama tíma og fyllsta öryggis er gætt.
Í aðveitustöð Veitna í Vesturbæ Reykjavíkur stendur þessa dagana yfir viðhald og uppfærsla á stjórnkerfi. Merki frá stöðinni sýndu ranglega að allir notendur væru aftur komnir með rafmagn. Það var því miður ekki rétt og það tafði fyrir upplýsingagjöf til íbúa.
Vegna viðhaldsins í Vesturbænum er ekki hægt að fjarstýra aðveitustöðinni og það fór strax fólk á staðinn til að koma rafmagni handvirkt aftur á. Við slíkar aðgerðir þarf að gæta fyllsta öryggis starfsfólks og taka þann tíma sem þarf.
Þetta olli því að hluti Vesturbæjar, Grandi og Seltjarnarnes voru án rafmagns í rúma klukkustund síðdegis í gær.