Áætlanir gera ráð fyrir að raforkunotkun á starfsvæði Veitna muni tvöfaldast á næstu 20-30 árum en spáin er byggð á mannfjöldaspám og fyriráætlunum um nýja byggð á höfuðborgarsvæðinu. Starfsfólk Veitna hefur undanfarin misseri lagt mikla vinnu í að greina hvers má vænta á komandi árum.
Búast má við aukningin komi nokkuð jafnt fram um allt veitusvæðið, en þó sérstaklega nálægt þeim þróunarásum sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa skilgreint. Áhrif hennar á dreifikerfið eru margvísleg, búast má við að lágspennulagnir í flestum hverfum þoli aukið álag að mestu, en að byggja þurfi upp flutningsgetu og spennaafl á hærri spennustigum (11-132kV) með tilheyrandi kostnaði og raski. Það má því búast við að á næstu 2-3 áratugum verði umtalsverð uppbygging á dreifikerfum rafmagns með það að markmiði að mæta aukinni eftirspurn en jafnramt að auka afhentingaröryggi, enda er stefnt að aukinni notkun raforku hér á landi í stað erlendra orkugjafa.
Rafveita Veitna rekur dreifikerfi í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ, á Seltjarnarnesi og á Akranesi. Orkunotkun á hvern íbúa hefur minnkað töluvert frá árinu 2008, fyrst og fremst vegna mun sparneytnari lýsingar og stórbættrar nýtingar almennra heimilstækja. Þannig hefur orkunotkun veitusvæðisins staðið í stað síðan 2008 þó íbúum hafi á sama tíma fjölgað um 20%. Orkuskipti í samgöngum og stórátak í húsnæðisuppbyggingu eru þó framundan og stefnir í mikinn viðsnúning í orkunotkun almennings.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.
Götuskápar Veitna komnir í jólabúning.
Loftlínur í dreifikerfi rafmagns eru smám saman að hverfa úr umhverfinu á rafveitusvæðum Veitna og stefnt er að því að afleggja þær allar fyrir lok árs 2027. Í stað þeirra koma jarðstrengir sem hafa fjölmarga kosti umfram loftlínurnar.