Umhverf­ismál

Það skiptir okkur í Veitum miklu máli að geta tryggt íbúum og atvinnulífi hreint og heilnæmt neysluvatn á veitusvæðum okkar til langrar framtíðar.

Vatnsvernd

Markvisst er unnið að forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins. Heiðmörk er aðalvatnstökusvæði Veitna fyrir höfuðborgarsvæðið. Vatnsvernd er afmörkuð utan um vatnsbólin. Umferð vélknúinna ökutækja um vegi á vatnsverndarsvæðinu er mikil, byggð hefur færst nær og ýmiss konar starfsemi fer þar fram. Hugmyndir á ýmsu stigi um framkvæmdir á og í nágrenni við svæðið valda okkur áhyggjum. Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um mikilvægi varfærnislegrar umgengni um vatnstökusvæðin. Hreint og gott neysluvatn í nánd við byggð eru auðlind sem ber að vernda með öllum tiltækum ráðum. Nánari upplýsingar um vatnsvernd.

Sjálfbær nýting

Um helmingur þessa heita vatns sem Veitur dreifa kemur frá lághitasvæðum. Veitur vinna að því að vatnstaka á lághitasvæðum hverju sinni rýri ekki möguleika á samsvarandi vatnstöku í framtíðinni. Með mælingum á vatnshæð og hitastigi í borholum er fylgst með því hvernig vinnslusvæðin bregðast við nýtingu. Lághitasvæðin á höfuðborgarsvæðinu eru nýtt jafnt og þétt og allt bendir til þess að hægt sé að viðhalda þeirri notkun í fyrirsjáanlegri framtíð komi ekkert óvænt upp. Ástand flestra lághitasvæða á Suður- og Vesturlandi er gott en þó eru undantekningar þar á. Afla þarf meira heits vatns fyrir Rangárveitu sem þjónar þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli og í Hveragerði.

Fylgjumst með gæðum

Vatnsveita: Árlega tekur heilbrigðiseftirlitið sýni úr öllum vatnsveitum Veitna til örverugreiningar skv. neysluvatnsreglugerð.

Rafveita: Árlega eru gerðar spennugæðamælingar til að fylgjast með því að rafdreifikerfi Veitna uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til gæða spennu í reglugerðum og stöðlum.

Fráveita: Tekin eru sýni úr skólphreinsistöðvum, í fjöruborði, við útrásir o.s.frv. í samræmi við sýnatökuáætlun sem Veitur viðhalda byggt á kröfum í starfsleyfisskilyrðum. Frá og með árinu 2022 hafa Veitur birt sýnatökuáætlanir í árlegum yfirlitsskýrslum sýnataka og -greininga fráveitunnar sem aðgengilegar eru hér.

Hitaveita: Veitur tryggja íbúum á dreifisvæðinu vatn til upphitunar af þeim gæðum sem samræmast skilgreiningum fyrirtækisins og ákvæðum í lögum og reglugerðum.