Umhverfismál

Vatnsvernd

Það skiptir okkur í Veitum miklu máli að stuðla að því að við eigum hreint neysluvatn fyrir íbúa á veitusvæðum okkar og þá erum við ekki eingöngu að hugsa um nána framtíð heldur ekki síður um ókomin ár. Markvisst er unnið að forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins. Heiðmörk er aðalvatnstökusvæði Veitna fyrir höfuðborgarsvæðið og byggist sú vatnsvinnsla alfarið á hreinu og ómeðhöndluðu grunnvatni. Umferð vélknúinna ökutækja um vegi á vatnsverndarsvæðinu er mikil, byggð hefur færst nær og ýmiss konar starfsemi fer þar fram. Hugmyndir á ýmsu stigi um framkvæmdir á og í nágrenni við svæðið valda okkur áhyggjum. Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um mikilvægi varfærnislegrar umgengni um vatnstökusvæði. Hreint og gott neysluvatn í nánd við byggð er ómæld auðlind sem ber að vernda með öllum tiltækum ráðum. Nánari upplýsingar um vatnsvernd.

Sjálfbær nýting

Um helmingur þessa heita vatns sem Veitur dreifa kemur frá lághitasvæðum. Okkur þykir mikilvægt og vinnum við stöðugt að því að vatnstaka á lághitasvæðum hverju sinni rýri ekki möguleika á samsvarandi vatnstöku í framtíðinni.  Með mælingum á vatnshæð og hitastigi í borholum er fylgst með því hvernig vinnslusvæðin bregðast við nýtingu.  Lághitasvæðin á höfuðborgarsvæðinu eru nýtt jafnt og stöðugt og allt bendir til þess að hægt sé að viðhalda þeirri notkun í fyrirsjáanlegri framtíð komi ekkert óvænt upp. Sams konar mælingar og fram fara á höfuðborgarsvæðinu eru gerðar fyrir lághitasvæðin á landsbyggðinni. Niðurstöður vinnslueftirlits undanfarinna ára sýna að ástand flestra lághitasvæða sem Veitur reka á Suður- og Vesturlandi er almennt gott. Hins vegar þarf að auka afkastagetu á nokkrum lághitasvæðum og er nú unnið að því.

Fylgjumst með gæðum

Á hverju ári tekur heilbrigðiseftirlitið sýni úr öllum vatnsveitum Veitna til örverugreiningar skv. neysluvatnsreglugerð. Árið 2014 voru hundrað vatnssýni tekin í Reykjavík.

Gerðar eru árlega nokkrar spennugæðamælingar til að fylgjast með því að rafdreifikerfi Veitna uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til gæða spennu í reglugerðum og stöðlum.

Fráveitan dælir hreinsuðu skólpi frá hreinsistöðvum og út í sjó (viðtaka) ákveðið langt frá landi. Fylgst er vel með álagi á skilgreindu þynningarsvæði og við strendur og gerðar eru mælingar á mengun á jaðri þynningarsvæða og við ströndina. Á nokkurra ára fresti eru gerðar ítarlegar viðtakarannsóknir til að kanna áhrif skólpsins á viðtakann og sýna þær að losun skólps hefur lítil sem engin áhrif á gæði sjávar.