Uppruni heita vatnsins

Heita vatnið sem notað er á höfuðborgarsvæðinu kemur annars vegar frá lághitasvæðum í Mosfellsbæ og Reykjavík (Laugarnesinu og Elliðaárdal) og hins vegar frá háhitasvæðum á Nesjavöllum og Hellisheiði.

Á kortinu má sjá hvernig heita vatnið dreifist um höfuðborgarsvæðið. Reykvíkingar vestan Grafarvogs, íbúar í Úlfarsárdal, Mosfellingar og Kjalnesingar fá að öllu jöfnu jarðhitavatn frá borholum í Reykjavík og Mosfellsbæ.

Grafarholt, Grafarvogur, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður fá hins vegar heitt vatn frá Nesjavöllum og Hellisheiði. Í sumum hverfum er mögulegt að taka tímabundið inn vatn með annan uppruna til að stilla kerfið af.

Helsti munur á innihaldi vatnsins milli hverfa er magn kísils. Kísilríkt heitt vatn myndar hrúður sem sest á kranaop og víðar þegar það kólnar. Mest er af kísli í heita vatninu sem kemur úr borholunum á Laugarnesinu þar sem vatnið er heitast. Vatnið sem kemur frá Nesjavöllum og Hellisheiði er aftur á móti upphitað grunnvatn með litlu kísilmagni.

Uppruni heita vatnsins á höfuðborgarsvæðinu.