Stað­reyndir um hækkun hita­veit­u­r­eikn­ingsins

Veitur eru ekki að hækka hitaveitugjald heimilanna um 50%. Þessi túlkun byggir á því að horfa einungis á einn hluta gjaldskrárinnar sem er núna 15% af heildarreikningi. Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna fer yfir málin.

Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna.

Undanfarið hefur því verið haldið fram í umræðu um hitaveitugjald Veitna að heimilin standi frammi fyrir allt að 50% hækkun á hitareikningnum sínum. Sú framsetning gefur ranga og villandi mynd af raunverulegum áhrifum breytinganna.

„Veitur eru ekki að hækka hitaveitugjald heimilanna um 50%. Þessi túlkun byggir á því að horfa einungis á einn hluta gjaldskrárinnar sem er núna 15% af heildarreikningi,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna. Hitaveitugjaldið skiptist í notkunargjald og fast gjald. Notkunargjaldið hækkaði um 7% hjá öllum en hækkun fasta gjaldsins fer eftir stærð húsnæðis og tengingum. 

Veitur hafa lagt áherslu á að útskýra breytingarnar með raunhæfum dæmum frekar en prósentutölum, enda gefa slíkar tölur mun betri mynd af því hvernig breytingarnar birtast í heimilisbókhaldi. Allt er þetta hluti af vegferð Veitna til að tryggja nægan forða, öryggi og rekstrarhæfni hitaveitunnar til framtíðar.

Tveir meginþættir hitaveitureikningsins

„Mikilvægt er að skilja að hitaveitugjaldið skiptist í tvo meginþætti. Annars vegar notkunargjald og hins vegar fast gjald. Notkunargjaldið endurspeglar raunverulega notkun á heitu vatni og er að meðaltali um 85% af hitaveitureikningi heimila. Fastagjaldið er hins vegar nú um 15% og stendur undir kostnaði við dreifikerfið, tengingar og mælingar – óháð því hversu mikið er notað,“ segir Sólrún.

Það er þessi hluti, fastagjaldið, sem hefur breyst og farið úr um 8% í um 15% af heildarreikningi. Sú breyting er að mestu tilkomin vegna þeirra fjárfestinga sem Veitur standa frammi fyrir við öflun á heitu vatni, viðhald og uppbyggingu hitaveitukerfisins.

Af hverju er verið að breyta samsetningu gjaldsins?

Markmið með hækkun fasta gjaldsins er meðal annars að draga úr þeim sveiflum sem heimilin finna nú þegar fyrir í hitaveitureikningum sínum. Með tilkomu snjallmæla greiða heimilin í dag fyrir raunverulega notkun hvers mánaðar. Það þýðir að reikningarnir eru mun hærri yfir vetrartímann en lægri yfir sumarið.

„Með því að færa hluta kostnaðarins við að hafa aðgengi að hitaveitu yfir í fasta gjaldið er verið að jafna þessa sveiflu að einhverju leyti. Það eykur fyrirsjáanleika í heimilisbókhaldinu og dregur úr þeim miklu árstíðabundnu toppum sem margir upplifa nú þegar.

Stór hluti kostnaðar hitaveitunnar er fastur – óháð veðri eða notkun. Þess vegna er eðlilegt að hluti gjaldtökunnar endurspegli það, rétt eins og í öðrum dreifikerfum. Við erum að skoða hvernig þessi skipting ætti að verða til framtíðar þannig að við stöndum undir því hlutverki sem okkur er falið en einnig að gjaldtakan styðji við aukna orkunýtni. Þetta er vegferð sem við erum með í skoðun ásamt öðrum veitum og stjórnvöldum,” segir Sólrún.

Er þá hitaveitureikningurinn alltaf hærri á veturna?

"Já reikningurinn getur verið mun hærri á veturna en á sumrin en húshitun er 90% af heitavatsnotkun. Með tilkomu snjallmæla er nú mæld raunnotkun í hverjum mánuði. Fólk borgar fyrir það sem það notar hverju sinni, í stað þess að dreifa kostnaði jafnt yfir árið og fá svo mögulega óvæntan reikning seinna eins og  var áður. Þegar kalt er í veðri, er kynt meira

Af hverju hækkar fasta gjaldið?

„Fasta gjaldið endurspeglaði áður ekki nægilega vel mun á stærð tenginga og fjölda notenda á bak við hverja tengingu. Með breytingunni er verið að leiðrétta þennan ójöfnuð og bæta jafnræði milli heimila, hvort sem um er að ræða einbýli, fjölbýli eða stórnotendur með umfangsmiklar tengingar.”

Hvernig birtist þetta í framkvæmd?

„Stærri tengingar taka meira pláss í kerfinu og krefjast meiri lagna, stærri búnaðar og aukinnar kerfisgetu. Það er eðlilegt að greiðslur endurspegli þá notkun. Þetta er sambærileg nálgun og hefur verið við lýði í rafdreifikerfinu um nokkurt skeið og við erum að færa hitaveituna nær þeirri leið, “ segir Sólrún.

Finnur almenningur mikið fyrir þessari hækkun fasta galdsins?

„Nei heimilin finna almennt mun minna fyrir hækkun fasta gjaldsins en stórnotendur og sveitarfélög. Hækkunin hefur hlutfallslega meiri áhrif á þau sem eru með stærstu tengingarnar. Fyrir hefðbundin heimili er breytingin í krónum talið mun hóflegri en fyrirsagnir hafa gefið til kynna.“

Tökum dæmi: 100 m2 íbúð í þríbýli, hækkar alls um 756.-kr að  meðaltali á mánuði eftir hækkunina 1. desember.  Þar af eru 322.-kr fyrir fast gjald hitaveitu, og 434.- kr fyrir notkunargjald.

Miðað við 10 íbúða fjölbýli er breytingin að meðaltali hækkun um 1.280 krónur á mánuði eða 846 kr. fyrir fast gjald og 434 kr. fyrir notkunargjald.

Er þetta dulbúin skattahækkun?

„Nei, þetta er hvorki skattahækkun né pólitísk ákvörðun. Um er að ræða breytingu á verðskrá sem endurspeglar raunkostnað, nýja tækni og sanngirni í greiðsluþátttöku.“

Veitur starfa innan eðlilegra arðsemisviðmiða en standa jafnframt frammi fyrir verulegri uppbyggingu og viðhaldi til að tryggja að samfélagið hafi heitt vatn til framtíðar. Það er okkar ábyrgð að bregðast við þeim áskorunum og tryggja öllum þessi lífsgæði.“

Hvað er mikilvægast að fólk skilji?

„Að hitaveitugjaldið er ekki að hækka um 50%. Breytingarnar snúast um að fólk greiði fyrir raunverulega notkun sína, á sanngjarnari og gagnsærri hátt en áður. Það er ósanngjarnt að draga upp mynd sem byggir einungis á um 15% af heildarreikningnum og þar sem verið er að breyta samsetningu á milli fastra og breytilegra hluta gjaldanna.“

En eiga snjallmælarnir ekki að koma í veg fyrir svona sveiflur? 

„Snjallmælar jafna ekki notkun, þeir mæla hana nákvæmlega. Sveiflur í notkun eru til staðar og hafa alltaf verið. Munurinn er sá að nú eru þær sýnilegar strax, í stað þess að safnast upp og koma síðar," segir Sólrún.


Í hnotskurn

  • Hitaveitugjaldið hækkar ekki um 50%. Sú fullyrðing gefur ranga mynd af heildaráhrifum á heimilin.
  • Notkunargjaldið er um 85% af hitaveitureikningi heimila og hefur hækkað að meðaltali um 9,6% frá 1.janúar 2025.
  • Fastagjaldið er nú um 15% af reikningnum. Hlutfallsleg breyting á því til þess að auka jafnræði og minnka sveiflur, skýrir háar prósentutölur í umræðu, en hefur mun minni áhrif á heildarreikning heimilanna.
  • Snjallmælar tryggja að heimilin greiði fyrir raunverulega notkun en ekki áætlaða notkun. Reikningar eru breytilegir milli mánaða en þeir eru hærri að vetri og lægri að sumri.
  • Breytingin á fasta gjaldinu leiðréttir ójöfnuð milli viðskiptavina með mismunandi stærð tenginga, stærri tengingar greiða nú meira í samræmi við það sem þær krefjast af kerfinu.
  • Markmiðið er sanngjarnari, gagnsærri og fyrirsjáanlegri gjaldtaka sem tryggir öryggi, rekstur og uppbyggingu hitaveitunnar til framtíðar.

Tengdar fréttir

Myndin sýnir hvernig gjaldskrár sérleyfisþjónustu hafa þróast miðað við vísitölu neysluverðs frá árinu 2014. Raunlækkun vatnsgjalds er 36%, rafmagnsdreifingar 13%, fráveitu 9% og raunhækkun hitaveitu á tímabilinu 6% á þessu tímabili.

Hvernig getum við aðstoðað þig?