
Veitur skrifuðu undir samning við þrjá samstarfsaðila, ÍAV, Stéttarfélagið og Ístak þann 18. desember.
Samningurinn var gerður í kjölfar útboðs á viðhaldi og þjónustu vegna veitukerfa sem hófst í nóvember 2024. Nýjar áherslur voru kynntar í útboðsferlinu sem miðuðu að því samstarfsaðilar gætu veitt heildarlausnir til að auka hagkvæmni, skilvirkni og fyrirsjáanleika. Auk þess að bæta gæði og þjónustu við viðskiptavini.
Þetta er fyrsta rammasamningsútboðið hjá Veitum af þessu umfangi þar sem unnið verður að viðhaldi lagna, vinnu við heimlagnir og nýframkvæmdir undir einum samningi. Tilboðsliðir eru um 3.600 talsins á samningstímanum sem miðar við allt að 7,5 ár.
Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna segir samninginn mikilvægt skref og endurspegla framtíðarsýn Veitna:
„Þetta er mjög góð niðurstaða og við fögnum öflugu samstarfi við fyrirtækin. Verðtilboð þeirra féllu vel að okkar kostnaðaráætlun en það sem er ekki síður mikilvægt og jákvætt er að niðurstaðan ræðst ekki einungis af verðtilboði heldur er litið til fjölbreyttra þátta og samlegðar við vegferð Veitna, hæfni- og gæðakrafna og framtíðarsýnar. Breyttar áherslur við gerð rammasamningsins eru til þess gerðar að bæta þjónustu við viðskiptavini okkar enn frekar og styðja við stefnu Veitna um að hafa frumkvæði að sjálfbærum lausnum með árangur samfélagsins að leiðarljósi. “
.jpg?width=3840&quality=75&branch=main)
Elvar Hermannsson, framkvæmdastjóri Stéttafélagsins, segir samninginn mikilvægan þátt í að auka stöðugleika í rekstri:
„Undanfarin ár höfum við í auknum mæli sérhæft okkur í viðhaldi og endurnýjun lagnakerfa. Slík verkefni eru að jafnaði sótt á útboðsmarkaði, sem felur í sér ákveðna óvissu. Með þessum rammasamningi eykst fyrirsjáanleiki í verkefnastöðu félagsins og rekstrargrundvöllur styrkist til lengri tíma. Þá fögnum við því sérstaklega að Veitur setji sig í fararbrodd opinberra verkkaupa þar sem kröfur um gæði, umhverfismál, öryggi og hæfni vega þungt.”

Einar Hrafn Hjálmarsson, framkvæmdastjóri jarðvinnu hjá ÍAV segir fyrirtækið mjög spennt fyrir samstarfinu:
„Við hjá ÍAV höfum áratuga reynslu í vinnu við veitukerfi og munum byggja á þeirri reynslu í þessu verkefni. Við hlökkum til að taka þátt í því markmiði Veitna að auka þjónustu við viðskiptavini með skilvirkni, gæði og öryggi að leiðarljósi.“

Karl Andreassen, forstjóri Ístaks segir:
„Ístak hefur ávallt lagt áherslu á faglega nálgun við úrlausn verkefna. Kröfur Veitna í Rammasamningsútboðinu voru metnaðarfullar hvað snýr að gæðum, öryggismálum, umhverfismálum og faglegri hæfni. Það eru kröfur sem falla vel að stefnu Ístaks og því sérstakt gleðiefni fyrir fyrirtækið að vera eitt þeirra þriggja verktakafyrirtækja sem eru aðilar að samningnum. Við höfum átt í löngu og farsælu samstarfi við Veitur og fyrirrennara þeirra og mun aðild að rammasamningnum treysta það samstarf enn frekar í sessi.“