Skil­málar heimlagna

Hér geta viðskiptavinir Veitna fundið upplýsingar um skilmála heimlagna, bæði almenna skilmála og skilmála fyrir hverja veitu.

Skilmálar heimlagna

Hér finnur þú almmennar upplýsingar um skilmála heimlagna. Til hliðar eru nánari upplýsingar um skilmála hverrar veitu.

Tengigjöld skulu greidd fyrir hverja tengingu húsveitu við dreifikerfi Veitna í samræmi við gildandi verðskrá.

  • Almennar upplýsingar um tengigjöld

    Gjald fyrir nýjar heimlagnir:

    Heimlagnareikningur:

    • Heimlagnareikningur er gefinn út þegar Veitur hafa samþykkt umsókn ásamt tilskyldum fylgigögnum og staðfest að umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir tengingu.

    • Reikningurinn greiðist á gjalddaga, sem er 30 dögum eftir útgáfu. Dráttarvextir reiknast eftir það.

    Tengigjald:

    • Greiðist á gjalddaga, sem er 30 dögum eftir útgáfu.

    Aukinn kostnaður við lagningu heimlagna:

    • Ef kostnaður við lagningu heimlagna er meiri en verðskrá segir til um, vegna fjarlægðar eða annarra aðstæðna, geta Veitur krafið umsækjanda um viðbótargreiðslu.

    Breytingar á deiliskipulagi:

    • Ef breytingar á deiliskipulagi húss eða lóðar leiða til breytts inntaksstaðar, breyttrar legu eða breyttrar stærðar heimlagna, ber lóðarhafi allan kostnað sem hlýst af færslu eða breytingu heimlagna.

    Lengd heimtaugastengs:

    • Fari heimtaugastrengur lengra en 20 metra inn fyrir lóðarmörk greiðir umsækjandi aukalega fyrir allan kostnað sem fylgir þeirri lengingu. Hægt er að sjá verðskrá heimlagna hér.

    Mæli- og stjórntæki:

    • Veitur ákveða stærð og gerð mæli- og stjórntækja sem notuð eru við mælingar á raforku og vatns.

    Lagning og aðgengi að heimlögnum:

    • Veitur hafa heimild til að grafa og leggja lagnir á lóðum eða landi einstaklinga eða fyrirtækja. Þeir hafa einnig rétt til að setja upp annan búnað sem tengist þessum lögnum. Auk þess hafa starfsmenn Veitna heimild til að komast að þessum mannvirkjum og búnað án endurgjalds, til að sinna viðhaldi og eftirliti.

    Breytingar á umsókn:

    • Dragi umsækjandi umsókn til baka eða geri á henni breytingar, geta Veitur innheimt þann kostnað sem þegar hefur verið stofnað til.

    Eignarhald og afnotaréttur heimlagna:

    • Heimlagnir eru eign Veitna nema sérstaklega sé um annað samið. Með greiðslu tengigjalda öðlast notandi afnotarétt af heimlögn.

  • Nýjar heimlagnir

    Inntaksstaður heimlagna:

    • Skal vera í rými við útvegg húss, á þeirri hlið sem snýr að dreifilögnum Veitna.

    • Heimilt er að staðsetja inntaksstað innar í húsi þegar heimlagnir fara inn um ídráttarrör í samræmi við verklagið "Hönnun og frágangur heimlagna".

    • Hönnuðir skulu kynna sér skilmála Veitna og staðsetningu lagna hennar.

    Bráðabirgðaheimlögn:

    • Ef bráðabirgðaheimlögn er tengd við lögn við lóðarmörk sem á að þjóna viðkomandi húsi varanlega, verður sú bráðabirgðaheimlögn aftengd um leið og aðalheimlögn er lögð inn í hús samkvæmt umsókn.

  • Almennar upplýsingar um heimlagnir

    Skilyrði fyrir heimlagnir í frístundahús og hesthús:

    • Veitur geta sett sérstök skilyrði fyrir heimlagnir í frístundahús, hesthús og þess háttar, t.d. varðandi lágmarkshlutfall umsækjenda í hverfi, staðsetningu inntaks og móttökubúnað

    Tengiskápar utandyra:

    • Þar sem ekki er dagleg viðvera, þarf að setja upp tengiskápar utandyra, á kostnað umsækjanda, sem innihalda nauðsynlegan inntaksbúnað og eru aðgengilegir starfsmönnum Veitna. Þessir tengiskápar þurfa að vera viðurkenndir af Veitum og aðgengilegir til tengingar og eftirlits. Þetta á við um hesthús og frístundahús.

    Mæli- og stjórntæki:

    • Veitur ákveða stærð og gerð mæli- og stjórntækja sem notuð eru við mælingar á raforku og vatns.

    Lagning og aðgengi að heimlögnum:

    • Veitur hafa heimild til að grafa og leggja lagnir á lóðum eða landi einstaklinga eða fyrirtækja. Þeir hafa einnig rétt til að setja upp annan búnað sem tengist þessum lögnum. Auk þess hafa starfsmenn Veitna heimild til að komast að þessum mannvirkjum og búnað án endurgjalds, til að sinna viðhaldi og eftirliti.

    Aðgengi að inntaksrýmum:

    • Tryggja verður aðgengi starfsfólks Veitna að inntaksrýmum. Þessi kvöð nær meðal annars til allra mæla og mælagrinda, stofnloka, aðalvara, stofntengiboxa eða stofnvarkassa og stofnlagna

    Aðgengi að heimlögnum:

    • Húseiganda er óheimilt að byggja yfir heimlagnir, reisa sólpall eða á annan hátt hindra aðgengi að þeim vegna bilana eða endurnýjunar. Slíkar framkvæmdir má einungis gera í samráði við Veitur og með viðeigandi ráðstöfunum.
  • Stækkun heimlagna

    Stækkun heimlagna:

    • Fyrir stækkun heimlagnar vegna aukinnar notkunar er greitt fyrir hina nýju heimlögn samkvæmt verðskrá.

    • Ef styrkja þarf stofnlagnir, þ.m.t. háspennulagnir, eða leggja nýja heimlögn lengri leið (eins og að sverari stofnlögn, dælustöð eða spennistöð), ber umsækjandi þann kostnað til viðbótar, enda um að ræða breytingu á skipulagsforsendum sem lágu fyrir við hönnun dreifikerfa.

    • Veitur geta sett það skilyrði að húseigandi sjái sjálfur um alla jarðvinnu innan sinnar lóðar í samræmi við kröfur Veitna.

    • Umsækjandi ber kostnað af yfirborðsfrágang innan sinnar lóðar og ber ábyrgð á þeim frágangi.

  • Breyting á heimlögnum

    Breyting eða færsla heimlagna:

    • Óski húseigandi eftir breytingu eða færslu heimlagnar vegna breytinga á skipulagi húss eða lóðar, ber hann allan kostnað af þeirri breytingu eða færslu.
    • Kostnaður miðast við áætlaðan raunkostnað og greiðist af umsækjanda áður en verkið hefst.
    • Veitur geta sett það skilyrði að húseigandi sjái um alla jarðvinnu innan sinnar lóðar í samræmi við kröfur Veitna.
    • Umsækjandi ber alltaf kostnað af yfirborðsfrágangi innan sinnar lóðar og ber ábyrgð á þeim frágangi.
  • Aftenging og endurtenging heimlagna

    Umsókn um aftengingu:

    • Sækja þarf skriflega um aftengingu heimlagna á Mínum síðum - Heimlagnaumsókn.

    • Endanleg aftenging aðalheimlagna vegna niðurrifs húss er gjaldfrjáls.

    • Fyrir tímabundna aftengingu er greiddur raunkostnaður.

    • Aftenging bráðabirgðaheimlagna er gjaldfrjáls ef viðkomandi heimlögn er á sama tíma tengd sem aðalheimlögn samkvæmt umsókn.

    Endurtenging við nýbyggingu eða aðflutt hús:

      • Sé sótt um nýja heimlögn innan 2ja ára frá aftengingu og af sömu stærð og fyrir var, greiðir umsækjandi áætlaðan raunkostnað við aftengingu og nýja tengingu.

      • Sé sótt um síðar, eða ef sótt er um aðra stærð heimlagna en fyrir voru, greiðir umsækjandi fyrir nýjar heimlagnir samkvæmt verðskrá.

  • Heitt vatn - sérákvæði

    Stærð heimæðar:

    • Ákveðin af Veitum og miðast við stærð húsnæðis í rúmmetrum eða ósk húseiganda um vatnsmagn í umsókn. Þær upplýsingar er að nálgast í verðskrá heimlagna.

    Tengigrind:

    • Ein tengigrind er innifalin í hverju tengigjaldi.

    • Fyrir hverja aukatengigrind greiðist 10% aukalega af heimæðargjaldi sömu málstærðar. Aukatengigrind er viðbót við þá tengigrind sem fyrir er.

    Lengd heimæðar:

    • Ef heildarlengd heimæðar er meiri en 50 m, getur Veitur krafið umsækjanda um viðbótargjald upp á 2% af heimæðargjaldi fyrir hvern metra umfram 50 m.

    • Fyrir lögbýli og heilsárshús í dreifbýli miðast þessi mörk við 70 m.

    Hitastig vatns:

    • Ef heimæð er svo löng að hitastig vatns verður undir viðmiðunarmörkum miðað við áætlað rennsli, geta Veitur hafnað umsókn eða sett skilyrði, eins og að þinglýsa kvöð á húsið að ekki verði gerð krafa á Veitur vegna hitastigs undir viðmiðunarmörkum.

    Tenging við hitaveitu:

    • Fyrir hús að stærð 3000 m³ eða minna skal húseigandi nota mát og beygjur fyrir inntak samkvæmt verklaginu "Tenging við hitaveitu".

    • Veitur grafa skurð og leggja sveigjanlega heimæð í ídráttarrör sem tengist veggmáti og inntaksbeygju.

  • Kalt vatn - sérákvæði

    Heimæðar á lóð:

    • Hver lóð á rétt á einni heimæð á því verði sem tilgreint er í verðskrá.

    • Almennt er lögð sér heimæð í hverja einingu par- og raðhúsa, auk sér eininga atvinnuhúsnæðis ef það er möguleiki.

    • Ef óskað er eftir annarri heimæð í sömu húseign, greiðir umsækjandi raunkostnað við lögn og tengingu og ber sjálfur ábyrgð á viðhaldi hennar.

    Vatn til annarra nota:

    • Vatn til annarra nota en heimilisnota er mælt með rennslismæli. Ef ekki er hægt að mæla notkun með rennslismæli, greiðir notandi notkunargjald miðað við áætlun Veitna.

    Tengigrind:

    • Ein tengigrind er innifalin í hverju tengigjaldi.

    • Fyrir hverja aukatengigrind greiðist 10% aukalega af heimæðargjaldi sömu málstærðar. Aukatengigrind er viðbót við þá tengigrind sem fyrir er.

    Byggingavatn:

    • Þegar sótt er um byggingavatn, lána Veitur sérstakan byggingavatnskrana með tæmingarloka sem tengist við heimæðarenda.

    • Fyrir vatnið er greitt daggjald samkvæmt verðskrá þar til sótt er um aftengingu.

    Leggja ídráttarrör fyrir kaldavatnsheimæð:

    • Húseiganda ber að leggja ídráttarrör fyrir kaldavatnsheimæð frá inntaki að heimæðarstút við lóðarmörk.

    • Ídráttarrörið á að vera tveimur stærðarflokkum gildara en heimæðin sem sótt er um og leggja það á um 120 cm dýpi. Húseigandi ber ábyrgð á legu þess.

    • Ef notuð eru inntaksmát og inntaksbeygjur samkvæmt verklaginu "Tenging við vatnsveitu", sjá Veitur um að grafa og leggja ídráttarrörið frá veggmáti að lóðarmörkum.

  • Rafmagn - sérákvæði

    Viðbótarheimtaug fyrir rafbílahleðslu:

    • Þrátt fyrir grein 4.1.7 í Tæknilegum tengiskilmálum rafveitna (TTR), samþykkja Veitur að leggja eina viðbótarheimtaug eða sérheimtaug inn á lóð vegna rafbílahleðslu þar sem eru fleiri en eitt húsnúmer. Þetta er aðeins heimilt ef núverandi heimtaugar hafa ekki nægilegt afl eða stækkun þeirra er mjög óhagkvæm.

    • Þetta á við um sameiginleg bílastæði þar sem heimtaug er tengd í viðurkenndan móttökuskáp notanda eða sameiginlegan bílakjallara.

    • Aldrei má leggja fleiri en eina heimtaug í sama inntaksrýmið eða sama húsnúmer. Rafverktaki ber ábyrgð á merkingu og afmörkun milli heimtauga innan húss.

    Aðalvar:

    • Húseigandi skal leggja til aðalvar í samræmi við stærð heimtaugar. Hámarksstærð heimtaugar samkvæmt verðskrá er 2400A

    • Fyrir heimtaug stærri en 2400A er gerður sérstakur samningur sem tekur til afhendingarspennu, afhendingar heimtaugar, heimtaugagjalds og mælingar.

    Dreifistöð (spennistöð):

    • Ef nauðsynlegt er að setja upp dreifistöð vegna tiltekinnar húsveitu, og ef hún er að mestu leyti notuð í þágu hennar, er eigandi skyldugur til að leggja Veitum til lóð eða húsnæði undir stöðina samkvæmt sérstöku samkomulagi.

    • Eigandinn skal hlíta öllum skilmálum Veitna um stærð lóðar og staðsetningu stöðvar.

    Kerfisframlag:

    • Samkvæmt reglugerð um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005, geta Veitur krafist greiðslu kerfisframlags af nýjum viðskiptavini ef væntanlegar tekjur dreifiveitu af viðskiptum standa ekki undir eðlilegum stofn- og rekstrarkostnaði. Þetta á einnig við ef styrkja þarf raforkukerfið vegna umsóknar um stækkun heimtaugar.

    Ídráttarrör fyrir heimtaugar 63 A og minni:

    • Húseigandi skal leggja 50 mm ídráttarrör frá inntaksstað að heimtaugarenda við lóðarmörk.

    • Ef notuð eru inntaksmát og inntaksbeygjur samkvæmt "Tenging við rafveitu", sjá Veitur um að grafa og leggja ídráttarrör frá veggmáti að lóðarmörkum.

    Skammtímanotkun:

    • Viðskiptamaður getur óskað eftir tengingu við dreifikerfi Veitna til skammtímanotkunar þar sem því verður við komið.

    • Gjald fyrir slíka tengingu er samkvæmt verðskrá Veitna, með 55% álagi fyrir vinnu utan dagvinnutíma (virka daga frá kl. 08:00 til 16:00).

  • Fráveita - sérákvæði

    Eignarhald fráveituheimæða:

    • Fráveituheimæðar eru eign húseiganda að tengingu við fráveitukerfi Veitna við mörk lands sveitarfélagsins, eins og við götu, gangstétt eða opið svæði.

    Ný hverfi og nýjar lóðir:

    • Í nýjum hverfum og þar sem nýjar lóðir eru stofnaðar í eldri hverfum, eru tengistaðir heimæða við fráveitu, regnvatn og skólp tilgreindir á hæðarblaði.

    Eldri hverfi:

    • Í eldri hverfum, þar sem heimæðastútar eru ekki til staðar, annast húseigandi lagningu heimæða sinna að tengingu við fráveitukerfi Veitna við mörk lands sveitarfélagsins, nema um annað sé samið.

  • Frístundahús - sérákvæði

    Tímasetning heimlagna:

    • Eingöngu er tekið við heimlagnaumsóknum frá 1.apríl til 1.okt ár hvert. .

    • Umsóknir um nýja heimlögn verða ekki teknar við frá 1. október til 1. apríl.

    • Lagnavinnan okkar er lokið í lok október og hún hefst ekki aftur fyrr en eftir miðjan apríl.

    Inntaksskápar:

    • Í frístundahúsum leggur umsækjandi til inntaksskápa í samræmi við sérskilmála, annars vegar fyrir heitt vatn og hins vegar fyrir rafmagn.

    Lengd heimlagna:

    • Ef heildarlengd heimlagna fer yfir 100 m, er greitt samkvæmt kostnaðaráætlun.

  • Inntaksrými og aðgengi fyrir starfsmenn Veitna

    Inntaksrými:

    • Inntaksrými skal vera í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

    • Í fjöleignarhúsum skal inntaksrými vera staðsett í sameign sem allir eigendur hafa aðgang að.

    Aðgengi fyrir starfsmenn Veitna:

    • Tryggja þarf aðgengi starfsmanna Veitna að inntaksrýmum.

    • Þetta felur í sér aðgengi að öllum mælum, mælagrindum, stofnlokum, aðalvörum, stofntengiboxum eða stofnvarkössum og stofnögnum.

    • Þar sem ekki er dagleg viðvera, geta Veitur krafist þess að nauðsynlegum inntaks- og mælabúnaði verði komið fyrir utandyra í viðeigandi skáp.

    • Húseigandi leggur til skápinn sem skal vera aðgengilegur starfsmönnum Veitna.

Hvernig getum við aðstoðað þig?