Skil­málar heimlagna

Tengigjöld skulu greidd fyrir hverja tengingu húsveitu við dreifikerfi Veitna í samræmi við gildandi verðskrá.

Image alt text

Í nýjum íbúðahverfum eru tengingar fráveitu lagðar að hverri lóð og þurfa lóðarhafar ekki að sækja sérstaklega um tengingu við fráveitu.

Í Reykjavík og á Akranesi eru tengigjöld fráveitu greidd til Veitna. Verðskrá tengigjalda er gefin út í upphafi árs.

Í Borgarbyggð annast sveitarfélagið innheimtu tengigjalda.

Á iðnaðar- og athafnasvæðum og þar sem um er að ræða stakar lóðir í grónum hverfum sækir lóðahafi um tengingu við fráveitu nema annað komi fram á hæðarblaði eða í úthlutunarskilmálum.

Veitur annast lagningu og tengingar sé þess óskað en einnig er lóðarhafa heimilt að láta verktaka á sínum vegum annast lagningu og tengingu undir eftirliti starfsmanna Veitna sem einnig skulu taka lagnirnar út áður en fyllt er í lagnaskurðinn. Tenging við lagnakerfi utan lóðamarka skal ávallt framkvæmd af starfsmönnum Veitna.

Kostnaður við lagningu tengingar greiðist af lóðarhafa og miðast við gerð, stærð og lengd hennar. Sé tengingin lögð af verktaka á vegum lóðarhafa greiðir hann kostnað beint til verktakans án milligöngu Veitna.

Image alt text

Tengingar

Tengingar eru lagðar í steinrörum og eru að lágmarki 150 mm að innanmáli. Lóðarhafi getur sótt um sverari lagnir og ákvarðast stærð þeirra þá af lagnahönnuði í samráði við Veitur.

Þar sem óskað er eftir aukinni flutningsgetu skal leggja fram útreikninga og greinargerð þar sem gerð er grein fyrir áætluðu rennsli, dreifingu þess innan sólarhringsins ásamt öðrum þeim upplýsingum sem máli kunna að skipta fyrir tengingu við það kerfi sem fyrir er.

Allar tengingar skulu vera tvöfaldar þ.e. regnvatn og skólp skal lagt í aðskildum lögnum. Þar sem kerfi Veitna er einfalt, regnvatn og skólp í sömu lögn, skal lóðarhafi leita samráðs um hvernig staðið er að tengingu tvöfalda kerfisins sem yfirleitt skal gert utan lóðamarka þar sem því verður við komið.

Lagning heimæða innan lóðar, frá tengistút við lóðamörk að landi sveitarfélagsins, er á ábyrgð lóðarhafa sem einnig annast rekstur þeirra og viðhald.

Image alt text

Frágangur og lega tenginga

Tengingar eru yfirleitt lagðar 1-2 m inn fyrir lóðamörk u.þ.b. 2 m frá lægsta horni lóðarinnar. Staðsetning lagna kemur fram á hæðarblöðum. Þar sem klöpp er við enda tengistúta er losað um hana u.þ.b. 1 m lengra en stútarnir ná. Endamúffa skólplagna er máluð rauð og endamúffa regnvatnslagna hvít. Samhliða fyllingu í lagnaskurðinn er komið fyrir borðum/hælum í sama lit sem standa um 20 cm upp úr landi að fyllingu lokinni.

Endum lagnanna er lokað með málmloki.

Meginreglan er að skólptenging liggur neðar en regnvatnstenging en á því geta verið undantekningar. Í vafatilfellum eru lóðarhafar vinsamlega beðnir að leita sér upplýsinga hjá Veitum sem einnig veita nánari upplýsingar um staðsetningu tenginga þar sem er þörf.

Image alt text

Hvernig getum við aðstoðað þig?