Fá virkjanavatn í stað jarðhitavatns

19. júlí 2019 - 14:49

Hitaveita Veitna mun á mánudaginn, 22. júlí, breyta afhendingu heits vatns í nokkrum hverfum borgarinnar og Mosfellsbæ svo þau fái vatn frá virkjunum ON á Hellisheiði og Nesjavöllum í stað vatns frá jarðhitasvæðum á Reykjum og í Reykjahlíð í Mosfellsbæ. Hverfin sem fá virkjanavatn í stað jarðhitavatns eru auk Mosfellsbæjar, Árbær, Ártúnshöfði og Kjalarnes. Notendur á þessum stöðum gætu orðið varir við einhverjar minniháttar truflanir á meðan skipt er yfir þótt það sé ekki líklegt. Um tímabundna aðgerð er að ræða en ekki liggur fyrir hvenær henni lýkur.

Nýjar veitulagnir undir Reykjanesbraut

08. júlí 2019 - 14:51

Í þessari viku munu Veitur hefja framkvæmdir við nýjar veitulagnir undir Reykjanesbraut við Sprengisand. Reynt verður að halda truflunum á umferð í lágmarki og búið er að leggja bráðabirgðavegi svo hægt sé að halda öllum akreinum opnum á meðan á framkvæmdunum stendur.
  

Stórar framkvæmdir við Reykjanesbraut

13. júní 2019 - 15:44

Veitur vinna nú að endurnýjun lagna frá Reykjanesbraut við Sprengisand í gegnum Elliðaárdalinn og upp með Rafstöðvarvegi. Um er að ræða fráveitulagnir, kaldavatnslagnir, hitaveitulagnir, raflagnir ásamt fjarskiptalögnum Gagnaveitu Reykjavíkur og Mílu. 

Fyrstu fjórir áfangar verksins eru nú í gangi beggja vegna Reykjanesbrautar, frá Bústaðavegi að Vesturlandsvegi. Framkvæmdunum fylgir nokkuð rask og sjást þær vel frá tveimur af umferðarþyngstu götum borgarinnar; Reykjanesbraut og Vesturlandsvegi. 

Lekaleit í hitaveitunni í Stykkishólmi

13. júní 2019 - 14:19

Þriðjudaginn 18. júní munu Veitur gera lekaleit í lokuðu kerfi hitaveitu í Stykkishólmi. Markmiðið er að auka rekstraröryggi kerfisins og tryggja sem besta nýtingu þess, öllum til hagsbóta. Leitin fer þannig fram að skaðlausu litarefni verður dælt inn á kerfið og í framhaldinu reynt að staðsetja leka og rangar tengingar. 

Guðrún Erla tekur tímabundið við Veitum

11. júní 2019 - 13:34

Guðrún Erla Jónsdóttir, formaður stjórnar Veitna, tekur tímabundið við starfi framkvæmdastjóra Veitna þangað til ráðið hefur verið í stöðuna. Guðrún Erla stígur á sama tíma til hliðar sem stjórnarformaður og tekur ekki þátt í störfum stjórnar meðan hún gegnir starfinu.

Guðrún Erla kemur ekki til með að sækja um stöðuna.

Inga Dóra Hrólfsdóttir, sem er að færast til innan samstæðunnar, lætur formlega af störfum 11. júní.

Starf framkvæmdastjóra var auglýst laust til umsóknar 25. maí síðastliðin og rann umsóknarfrestur út 9. júní.

Átak í innviðum fyrir rafbíla á Akranesi

07. júní 2019 - 10:56

Í dag var undirritað samkomulag milli Akraneskaupstaðar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna um uppbyggingu innviða í bænum fyrir rafbílaeigendur. Byrjað verður strax í ár og verkefninu lokið á því næsta. Komið verður upp hleðslum á allt að sex stöðum í bænum. Þá munu Akraneskaupstaður og OR stofna sjóð sem úthlutað verður úr til húsfélaga fjölbýlishúsa sem hafa sett upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum. Átta milljónir króna verða í sjóðnum.

Dæla sett í borholu á Bakka - röskun á hitaveitu í Ölfusi

31. maí 2019 - 12:51

Heitavatnslaust verður í Ölfusi, og þar með Þorlákshöfn, á milli kl. 02:00 og 06:00 í nótt, aðfararnótt laugardags. Taka þarf rafmagn af dælustöðinni á Bakka á meðan unnið er í nýjum rafmagnstengingum sem nauðsynlegar eru áður en dæla verður sett í aðra borholuna sem fæðir hitaveituna í Ölfusi. Sjálfrennsli hefur verið í holunni hingað til. Við gerum ráð fyrir að vinnan taki tvær klukkustundir og að vatn verði aftur komið á kl. 04:00 en síðan tekur um tvær klukkustundir að ná upp fullum þrýstingi í kerfinu. Verkið er unnið að nóttu til svo notendur verði sem minnst varir við lokunina.

Hatari, Madonna og Måns minnka vatnsnotkun

19. maí 2019 - 15:39

Í gærkvöldi settist stór hluti íslensku þjóðarinnar niður fyrir framan sjónvarpsskjáina til að fylgjast með hinni árlegu Eurovision söngvakeppni. Söngvakeppnin er einn þeirra viðburða þar sem lesa má ýmsar upplýsingar um sameiginlegt hegðunarmynstur borgarbúa með því að skoða vatnsnotkun.