Framkvæmdasvæði á Bæjarhálsi færist til

01. nóvember 2019 - 15:33

Hitaveituframkvæmdunum við Bæjarhálsinn miðar áfram og í næstu viku færist framkvæmdasvæðið austar. Mánudaginn 4. nóvember verður umferð breytt eins og sést á myndinni.

Gert er ráð fyrir að þessi breyting vari fram um miðjan desember en að götustubburinn frá hringtoginu við Tunguháls að Hraunbæ verði opnaður um miðjan nóvember.

Veitur auglýsa eftir tilboðum í tvær veitur í Bláskógabyggð

01. nóvember 2019 - 15:21

Veitur munu nú um helgina auglýsa til sölu hitaveitu og vatnsveitu fyrirtækisins í Bláskógabyggð. Þær þjóna einkum sumarhúsum á svæðinu frá jörðum Brekku til Úthlíðar í Biskupstungum. Hvorug veitan er með sérleyfi og á svæðinu eru nokkrar vatns- og hitaveitur í eigu annarra. Veitunum fylgir nýtingarréttur af vatnsbóli og jarðhitaborholu.

Vatni úr hitaveituholu veitt kældu í fjöru

18. október 2019 - 13:04

Ekki rennur lengur heitt vatn á yfirborði við göngustíg frá hitaveituholu sem heitt vatn hefur streymt uppúr í Grafarvogi. Heita vatninu sem kemur úr holunni, og er nú um 60°C heitt, hefur verið veitt í drenlögn sem liggur í fjöru þaðan sem það rennur út í sjó. Í dag verða brunaslöngur lagðar að holunni til að kæla vatnið svo hiti þess fari niður fyrir 30°C. Með þessum aðgerðum er hætta fyrir menn og dýr ekki til staðar og gufa frá holunni er talsvert minni.

Leki úr hitaveituholu í Grafarvogi

17. október 2019 - 16:54

Um 70°C heitt vatn streymir nú úr hitaveituholu við golfvöllinn í Grafarvogi og út i sjó. Um er að ræða holu sem hefur ekki verið virkjuð en leka fór úr henni fyrr í dag. Talið er orsökina megi finna í framkvæmdum Veitna í Geldinganesi þar sem verið er að örva borholu með því að dæla vatni undir þrýstingi í hana. 

Búið er að girða af svæðið í kringum holuna og merkja en búast má við að vatn komi úr henni á meðan á framkvæmdum stendur í Geldinganesi, eða næstu tvær vikur. Eru íbúar í Grafarvogi beðnir að fara varlega séu þeir á ferð þarna og virða girðingar og merkingar. 

Ekki þörf á að sjóða vatn úr Grábrókarhrauni

16. október 2019 - 10:53

Veitur, að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, aflétta hér með tilmælum til viðskiptavina vatnsveitu fyrirtækisins úr Grábrókarhrauni um suðu neysluvatns. Sýni tekin úr vatnsbólinu sjálfu og víðar úr veitukerfinu síðustu daga hafa staðist gæðakröfur og settur hefur verið upp lýsingarbúnaður við vatnsbólið sem tryggir enn frekar öryggi vatnsins.

Veitur biðja viðskiptavini velvirðingar á öllum þeim óþægindum sem þetta hefur valdið og þakka þeim fyrir að sýna stöðunni skilning.

Borhola í Geldinganesi örvuð næstu daga

11. október 2019 - 10:20

Veitur munu á næstu dögum hefja örvun borholu í Geldinganesi í samræmi við  áætlanir um að þróa nesið sem vinnslusvæði jarðhita fyrir hitaveituna í Reykjavík. Holan var boruð haustið 2001 en hefur ekki gefið nægt vatn til að rétt þætti að tengja hana hitaveitunni. Smáir jarðskjálftar geta fylgt örvuninni.

Veitulagnir lagðar undir Elliðaárnar í vetur

10. október 2019 - 11:36

Á næstu dögum verður hafist handa við að sameina lagnaleiðir veitulagna í Elliðaárdal. Nú liggja lagnir af ýmsu tagi víða um dalinn en með framkvæmdunum nú munu stofnæðar vatnsveitu og hitaveitu auk rafmagns- og fjarskiptastrengja liggja samhliða undir Elliðaárnar í grennd við núverandi hitaveitustokk, neðst í dalnum.