Fuglar og önnur dýr á verndarsvæðum vatnsbóla

08. janúar 2019 - 10:58

Gefin hefur verið út skýrslan Fuglar og önnur dýr á verndarsvæðum vatnsbóla Reykjavíkur. Í henni er að finna upplýsingar um fugla og spendýr er sjást á brunnsvæðum Veitna í Heiðmörk og nágrenni. 

Höfundur skýrslunnar er Hafsteinn Björgvinsson og er þetta 23. útgáfa hennar. Tilgangur útgáfunnar er að fylgjast með þeim fjölda fugla og spendýra, og flækingum, sem sjást á þessum svæðum. Heiðmörkin er vatnsverndarsvæði og því eðlilegt að skráning á dýralífi sé til staðar og sem mestar upplýsingar fáanlegar um fjölda og tegundir sem þar þrífast.

Breytingar á verðskrá Veitna

02. janúar 2019 - 09:07

Um áramótin hækkuðu Veitur verð fyrir heitt og kalt vatn og fráveitu. Engar breytingar verða á verði raforkudreifingar. 

Verðskrá Veitna fyrir heitt vatn hækkar um 1,59% og byggist sú hækkun á breytingum á vísitölu neysluverðs. 

Álagt vatnsgjald hækkar í samræmi við byggingarvísitölu sl. 12 mánuði, eða um 4,04%, og notkunargjöld fyrirtækja, sem fylgja byggingarvísitölu síðustu þriggja mánaða, um 1,22%. 

Náttúran kallar - þemadagar fráveitu

21. nóvember 2018 - 11:26

Í dag lifa á fimmta milljarð jarðarbúa án öruggs aðgangs að klósetti og þar af gengur hátt í milljarður manna örna sinna úti við. Um 80% af skólpi sem frá okkur mannfólkinu kemur flæðir því aftur út í umhverfið án þess að það sé meðhöndlað eða endurnýtt og mengar þar bæði vatn og jarðveg.  Áhrif þessa mikla magns af saur og þvagi hefur í för með sér víðtæk neikvæð áhrif, m.a.  á lýðheilsu, lífskjör, næringu, menntun og efnahag fólks um allan heim.

Líkan sem hermir olíuslys í nágrenni vatnsbóla

14. nóvember 2018 - 13:42

Verkfræðistofan Vatnaskil hefur þróað aðferðafræði við reikninga á dreifingu olíu í jarðvegi og grunnvatni. Veitur og Vatnaskil nýta nú þá vinnu til að setja upp líkan til að herma olíuslys sem kunna að verða í  nágrenni vatnsbóla Veitna í Heiðmörk. Líkanið tekur tillit til eðliseiginleika olíu og sýnir hvernig hún getur breiðst út, allt frá upptökum að vatnstökuholum, verði mengunarslys.  

Bilun á Deildartunguæð

13. nóvember 2018 - 14:11

Á ellefta tímanum í morgun varð bilun á Deildartunguæð rétt austan við Flókadalsá í Borgarfirði. Hitaveitulögnin flytur heitt vatn úr Deildartungu til Akraness og Borgarbyggðar. Lokað var fyrir vatnsrennslið um leið og bilunin uppgötvaðist og viðgerð stendur yfir. Truflun verður á afhendingu á heitu vatni til nokkurra bæja í Borgarbyggð vegna þessa en heitavatnsleysi á Akranesi, sem tilkynnt var um í morgun, er vegna óskylds viðhalds. Talsvert vatn úr æðinni rann í Flókadalsá og því hefur eftirlitsaðilum og viðkomandi veiðifélagi verið tilkynnt um atburðinn.

Lýsing á hluta kalda vatnsins

07. nóvember 2018 - 09:16

Veitur hefja á næstunni lýsingu á hluta af því kalda vatni sem höfuðborgarbúar fá úr vatnsbólunum í Heiðmörk. Með því er dregið úr líkum á því að jarðvegsgerlar, sem borist geta í grunnar borholur við sérstakar veðuraðstæður, berist í vatnsveituna. Vatn úr einni gjöfulli en grunnri borholu fer í gegnum lýsingarbúnað. Holan gefur um 100 lítra á sekúndu sem er um fimmtungur heildarframleiðslu vatnstökusvæðisins.

Grafið í kaldavatnslögn

30. október 2018 - 14:08

Við framkvæmdir verktaka gerðist það óhapp að grafið var í stofnlögn kalds vatns við Tanngarð, hús tannlæknadeildar Háskóla Íslands, um klukkan 13:00 í dag. Um er að ræða stóra lögn er fæðir Vesturbæ Reykjavíkur. Mikið vatn flæddi úr lögninni og hefur það valdið þrýstingslækkun í dreifikerfi kalda vatnsins í vestari hluta borgarinnar. Tilkynningar hafa borist um vatnsleysi á þessu svæði. 

Búið er að stöðva lekann og unnið er að því að ná þrýstingi í eðlilegt horf. 

Metnotkun á heitu vatni í september

11. október 2018 - 13:39

Metsala var á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu í september sé litið til áranna frá 2014. Þá fóru 5578 milljónir rúmmetra til viðskiptavina, bæði heimila og fyrirtækja en fyrra met var sett í septembermánuði árið 2016 þegar notkunin var 4804 milljónir rúmmetra.  Ástæðan er auðvitað tíðarfarið en haustið hingað til hefur verið áberandi kalt. September var ágætur framan af en síðustu 10 daga mánaðarins kólnaði talsvert.