Stórt skref stigið í rafvæðingu hafna í Reykjavík

15. maí 2020 - 15:04

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Faxaflóahafnir, Veitur, Samskip og Eimskip undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að taka í notkun háspennibúnað fyrir flutningaskip við Sundabakka og Vogabakka í Reykjavík. Búnaðurinn mun draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og staðbundinni loftmengun frá starfsemi hafnarsvæða í Reykjavík. Um er að ræða fyrsta áfanga í því verkefni að tryggja raftengingar fyrir stærri skip í höfnum á Íslandi. 

Olíumengaður jarðvegur fannst við framkvæmdir í Elliðaárdal

14. maí 2020 - 18:20

Við framkvæmdir í Elliðaárdal í dag kom verktaki á vegum Veitna niður á mannvirki í jörðinni sem ekki var vitað af við Rafstöðvarveg rétt við lagnastokkinn sem liggur yfir árnar neðarlega í dalnum. Talið er að um gamlan, steyptan olíutank sé að ræða. Tankurinn, sem í reyndist vera olíumengaður jarðvegur, er í aðeins 15-20m fjarlægð frá árbakka Elliðaáa. Vitað var að á þessu svæði gæti möglulega fundist mengaður jarðvegur en ekkert í líkingu við það magn er fannst í dag.

Ríflega 16% landsmanna henda rusli í klósett

07. maí 2020 - 13:23

Um 16,5% landsmanna segjast hafa hent blaut-og sótthreinsiklútum og öðru rusli í klósettið en 83,5% landsmanna segjast engu henda. Þetta er meðal niðurstaðna könnunar sem gerð var fyrir Veitur fyrri hluta aprílmánaðar. Nýlega var greint frá því að skólphreinsistöð Veitna við Klettagarða í Reykjavík varð óstarfhæf um tíma þannig að beina þurfti óhreinsuðu skólpi í sjó vegna gríðarlegs magns af sótthreinsi- og blautklútum og öðru rusli sem hafði verið hent í salerni á veitusvæðinu og skapað mikið álag á búnað hreinsistöðvanna.

Hitaveitubilun veldur vatnsleysi í vesturhluta borgarinnar

25. mars 2020 - 21:33

Við viðgerð á stofnæð hitaveitu við Valsheimilið í Reykjavík fór lögnin í sundur með þeim afleiðingum að vesturhluti borgarinnar er nú heitavatnslaus. Unnið er að því að setja vatn aftur á eftir öðrum leiðum. Talið er að um þrjár klukkustundir taki að ná upp fullum þrýstingi í kerfinu.

Bilunin nú tengist stórum leka er varð á svipuðum stað í desember síðastliðnum. Þá var gert við staðbundna skemmd á lögninni en nú er ljóst að sá leki hefur valdið skemmdum á lögninni víðar. Hún verður nú tekin úr rekstri svo ekki verði truflanir á rekstri af hennar völdum aftur.

Óhreinsað skólp í sjó vegna blautklúta

23. mars 2020 - 18:05

Hreinsistöð fráveitu við Klettagarða er nú óstarfhæf og fer óhreinsað skólp í sjó. Ástæðan er gríðarlegt magn af blautklútum, t.a.m. sótthreinsiklútum, í fráveitukerfinu. Svo virðist sem magn slíkra klúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og hefur það skapað mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk.

Aukið magn blautklúta í fráveitu

19. mars 2020 - 13:48

Gríðarlegt magn af rusli berst nú í hreinsistöðvar fráveitu Veitna í Klettagörðum og í Ánanaustum. Svo virðist sem magn blautklúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og skapar það mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk. Mikil vinna og kostnaður felst í því að hreinsa dælur og farga ruslinu og þegar álag er mikið aukast líkur á bilunum í búnaði með tilheyrandi afleiðingum.

Breytingar á hæð vatnsborðs í Elliðavatni

28. febrúar 2020 - 18:27

Vegna framkvæmda Veitna neðst í Elliðaárdal var vatnsborð Elliðavatns lækkað of mikið og fór það niður fyrir viðmiðunarmörk 19. febrúar síðastliðinn. Brugðist hefur verið við þessum mistökum og gert er ráð fyrir að yfirborð vatnsins verði aftur komið upp fyrir mörkin á næstu dögum. Viðmiðunarmörkin eru að vatnshæð Elliðavatns fari ekki undir 76,40 metra hæð yfir sjávarmáli en hún fór niður í 76,03.

Veitur hafa upplýst hagaðila og Hafrannsóknarstofnun er að kanna hugsanleg áhrif þessa á lífríki vatnsins.

Dagleg notkun á neysluvatni um 140 lítrar

03. febrúar 2020 - 13:49

Í nýútkominni skýrslu, Heimilisnotkun á neysluvatni, kemur í ljós að dagleg notkun á neysluvatni í nýlegum íbúðahverfum á höfuðborgarsvæðinu sé að jafnaði nálægt 140 L á hvern íbúa. Þrátt fyrir að hvati til vatnssparnaðar hérlendis hafi ekki verið eins mikill og í mörgum meginlöndum Evrópu, þá sýna mælingar engu að síður að neysluvatnsnotkun íbúa á höfuðborgarsvæðinu hefur á undanförnum áratugum verið nokkuð nálægt því sem lægst var Evrópu árið 2004, eða á bilinu 120 til 170 l á íbúa á dag.