Viðgerð í Ánanaustum - óhreinsað skólp í sjó

13. maí 2019 - 15:53

Á morgun, þriðjudaginn 14. maí, þarf að fara í viðgerð á biluðu útrásarröri í hreinsistöðinni í Ánanaustum. Til að takmarka rennsli að stöðinni þarf að stöðva skólpdælur í Faxaskjóli og Boðagranda og verður skólpi dælt óhreinsuðu í sjó á meðan. Það  á einnig við um það skólp sem berst í stöðina við Ánanaust.

Áætlað er að vinna standi yfir milli kl. 8 og 20.

Átak í innviðum fyrir rafbíla í Reykjavík

04. apríl 2019 - 17:12

Í dag var undirritað samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Verkefnin, sem byrjað verður á nú í ár og stendur í þrjú ár, felur í sér að komið verður upp hleðslum fyrir rafbíla við 30 starfsstöðvar Reykjavíkurborgar, 20 hleðslur á ári næstu þrjú árin verða settar upp eftir ábendingar frá íbúum og þá munu Reykjavíkurborg og OR stofna sjóð sem úthlutað verður úr til húsfélaga fjölbýlishúsa sem hafa sett upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum.

Litur settur í lokað kerfi hitaveitu - lekaleit í Hveragerði

13. mars 2019 - 16:43

Fimmtudaginn 14. mars munu Veitur hefja lekaleit í lokuðu kerfi hitaveitu í Hveragerði. Markmiðið er að auka rekstraröryggi kerfisins og tryggja sem besta nýtingu þess, öllum til hagsbóta.

Leitin fer þannig fram að skaðlaust litarefni verður sett í kerfið í varmastöðinni og reynt með sjónskoðun á yfirborði og í fráveitubrunnum að staðsetja leka og rangar tengingar. Beri það ekki árangur verða tekin sýni úr heita vatninu sem greind verða hjá ÍSOR. 

Vinna við færslu hitaveitu- og raflagna að hefjast við Reykjanesbraut

12. mars 2019 - 18:25

Vegna fyrirhugaðrar breikkunar Vegagerðarinnar á Reykjanesbraut þarf að færa hitaveitu- og háspennulagnir við brautina. Í samstarfi við HS Veitur hf. eru Veitur nú að hefja þá vinnu norðan megin við Reykjanesbrautina. Framkvæmdasvæðið nær frá kirkjugarðinum í Hafnarfirði að Suðurholti, sunnan við Hvaleyrarskóla. Framkvæmdir munu hefjast nú í mars og ljúka í júlí 2019. Kynningarfundur fyrir íbúa verður miðvikudaginn 13. mars kl. 17:30-18:30 í Hafnarborg.

Stór bilun í hitaveitu í Kópavogi

02. mars 2019 - 09:43

Í nótt brast stofnæð hitaveitu rétt við gatnamót Fífuhvammsvegar og Smárahvammsvegar með þeim afleiðingum að stór hluti bæjarins er heitavatnslaus, þ.e. allt póstnúmer 200 og Smárahverfi i póstnúmeri 201. Veitum barst tilkynning um lekann á .þriðja timanum i nótt frá lögreglunni sem varð vör við að heitt vatn flæddi upp á yfirborð. Mikill vatnsflaumur hefur tafið vinu við að staðsetja bilunina nákvæmlega því allt sem er grafið upp fyllist strax af vatni. Gert er ráð fyrir að viðgerð standi fram eftir degi. 

Það er óþarfi að kynda allan heiminn!

21. febrúar 2019 - 16:28

Í gær settu Veitur nýja auglýsingaherferð í loftið sem ætlað er að minna fólk á að fara vel með heita vatnið. Herferðin kallast "Það er óþarfi að kynda allan heiminn" og Í henni er sýnt á myndrænan hátt hvernig varmi tapast úr híbýlum okkar eftir ýmsum leiðum. Mikilvægt er að nýta heita vatnið vel, það skilar sér í budduna hjá viðskiptavinum; bæði með minna keyptu magni af heitu vatni sem og í betri rekstri hitaveitunnar, sem til lengri tíma litið skilar sér einnig í lægri orkureikningi.

Ragnheiður H. Magnúsdóttir hlýtur UT-verðlaun Ský 2019

12. febrúar 2019 - 15:51

Ragnheiður H. Magnúsdóttir, forstöðumaður Framkvæmda Veitna, hlaut á dögunum UT-verðlaun Ský 2019 en þau voru afhent við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag. Það var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem veitti verðlaunin í ár.

Heitavatnsnotkun í hámarki – dregur úr í kvöld

02. febrúar 2019 - 11:48

Aldrei áður hefur verið notað meira af heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu en sl. sólarhring. Síðustu klukkustundina var metrennsli þegar íbúar og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu nýttu tæplega 17.000 rúmmetra af heitu vatni og met fyrir meðalrennsli á sólarhring hefur einnig verið slegið. í dag lítur út fyrir að hægur vöxtur verði á notkun fram eftir degi en síðan dragi jafnt og þétt úr. Enn sem komið er hefur ekki þurft að takmarka afhendingu heits vatns til stórra notenda á höfuðborgarsvæðinu.