Ekki lengur þörf á suðu neysluvatns í Borgarnesi

04. október 2019 - 11:55

Endurtekin sýnataka úr vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni hefur leitt í ljós að ekki er e-coli mengun í neysluvatninu. Heilbrigðiseftirlit Vesturlands telur því ekki lengur þörf á að sjóða vatnið. Veitusvæðið sem vatnsbólið í Grábrókarhrauni þjónar nær til Borgarness, Bifrastar og Varmalands auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði.

Óstaðfestur grunur um E. coli mengun í vatni frá vatnsbóli í Grábrókarhrauni

03. október 2019 - 13:04

Grunur er um E. coli mengun í neysluvatni frá vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni. Vatnsbólið þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Hvort raunveruleg mengun er á ferðinni getur skýrst fyrir hádegi á morgun, föstudag.

Þótt aðeins sé um grun að ræða mælast Veitur til þess að notendur á þessu svæði sjóði neysluvatn í öryggisskyni þangað til önnur tilmæli berast. Sjóða þarf neysluvatn í að minnsta kosti eina mínútu.

Opnað fyrir umferð um hringtorgið á Bæjarhálsi

27. september 2019 - 15:01

Nú hefur verið opnað fyrir umferð um hringtorgið á Bæjarhálsinum. En til að halda áfram með verkið þurfum við að loka fyrir umferð í aðra áttina, frá vestri til austurs, um Bæjarháls, milli Bæjarbrautar og Stuðlaháls.

Hjáleið um Lyngháls og Tunguháls verður vel merkt, hana má einnig sjá á meðfylgjandi mynd.

Vinsamlegast nýtið merkta hjáleið svo umferð í íbúðahverfinu aukist ekki. Við vonum að óþægindin sem þetta skapar verði sem minnst.

Framkvæmdir við háspennustreng í Miðborginni að hefjast

16. september 2019 - 14:54

Framkvæmdir áttu að hefjast í október en vegna þess hve háspennustrengur rafmagns er illa farinn þarf að hefja vinnu strax við að skipta honum út frá Bergstaðastræti 44, meðfram Baldursgötu að Freyjugötu 21. Í því felst töluvert rask fyrir íbúa sem óhjákvæmilega fylgir framkvæmdum sem þessum, en það þýðir m.a. að taka þarf upp hellur og grafa yfir vegi. 

Við gerum ráð fyrir að geta haldið akstursleiðum opnum en aðgengi fyrir gangandi vegfarendur verður skert. Við munum gæta fyllsta öryggis og biðjum vegfarendur að virða lokanir. 

Lokanir við hringtorg á Bæjarhálsi, Bæjarbraut og Hálsabraut

12. september 2019 - 11:55

Undanfarnar vikur höfum við unnið að endurnýjun hitaveitu í Árbænum. Verkið hefur kallað á lokun gatna sem hefur þýtt að beina hefur þurft umferð inn í hverfið, sem óneitanlega eykur á umferð í kringum unga ferðalanga á leið í skóla.

Við höfum reynt að vinna verkið hratt og þessum verkhluta lýkur mánudaginn 23. september. Malbikað verður í kjölfarið. Allt bendir til þess að við getum opnað fyrir umferð þann 27. september. 

Þar til þessu er lokið viljum við gjarnan að umferð sé beint í gegnum Hraunbæinn en ekki Rofabæ, og er það gert fyrir gangandi vegfarendur.

Lokað fyrir heitt vatn í Heiðarbrún í Hveragerði

11. september 2019 - 15:52

Við hjá Veitum vinnum í dag að því að færa dælu í borholu sem tilheyrir Austurveitu á meira dýpi. Þegar farið var af stað í verkið var gert ráð fyrir að þær tvær borholur sem áfram voru í rekstri dygðu til að anna þörfinni á heitu vatni. Svo reyndist ekki vera og var því gripið til þess ráðs að skerða afhendingu á heitu vatni hjá íbúum og fyrirtækjum við Hvammsveg í Ölfusi og í þéttbýlinu við Gljúfurholt. Sú skerðing átti að standa til klukkan 17:00 þegar framkvæmdum átti að ljúka.

Afkastageta hitaveitu í Þorlákshöfn aukin - lokanir á næstu dögum

06. september 2019 - 14:12

Á næstu dögum verður unnið að undirbúningi tengingar á nýrri stöðvardælu fyrir dælustöð hitaveitu á Bakka. Því verður heitavatnslaust í Þorlákshöfn, mánudaginn 9. september á milli kl. 18:00 og 22:00.  Föstudaginn 13. september verður minna heitt vatn til skiptanna í bænum á milli kl. 13:00-20:00 og lokað verður alveg fyrir heita vatnið frá kl. 20:00 og fram til kl. 10:00 á laugardagsmorgun. 

Lokun á Akrafjallsvegi þriðjudag til fimmtudags

03. september 2019 - 09:36

Þriðjudaginn 3. september klukkan 20:00 verður Akrafjallsvegi lokað norðan Akrafjalls vegna vinnu á endurnýjun aðveitu hitaveitu frá Deildartungu. Umferð verður beint suður með Akrafjalli á meðan framkvæmdir standa yfir.

Gert er ráð fyrir að vinna hefjist 3. september kl: 20:00 og ljúki 5. september kl 16:00.