Stefna

Veitur leggja grunn að lífsgæðum samfélagsins.

Umhverfis- og auðlindastefna

Umhverfis- og auðlindastefna

Umhverfis- og auðlindastefnan er skuldbinding fyrirtækisins um stöðugar umbætur í umhverfismálum, stefnan veitir aðhald við setningu markmiða og er grundvöllur góðs samstarfs við hagsmunaaðila. Umhverfis- og auðlindastefnan byggir á gildum og heildarstefnu Veitna.

Veitur stefna að því að starfsemin verði orðin kolefnishlutlaus árið 2030.

Fyrirtækið hlítir öllum ákvæðum laga og reglugerða sem um starfsemina gilda.

Umhverfis- og auðlindastefnan er sett fram með meginreglum hér fyrir neðan og útfærð nánar með markvissri stjórnun og umbótum þýðingarmikilla umhverfisþátta.

Loftslag og loftslagsáhætta

Fyrirtækið stefnir að því að starfsemin verði orðin kolefnishlutlaus árið 2030. Fyrirtækið vinnur gegn og bregst við áhrifum loftslagsbreytinga á starfsemina, vinnur eftir eigin markmiðum og stýrir sinni loftslagstengdu áhættu.

Ábyrg auðlindastýring

Fyrirtækinu er falin mikil ábyrgð á þeim auðlindum sem hún nýtir. Ábyrgðin felst í því að vinna eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og því að tryggja sjálfbæra nýtingu, það er að kynslóðir framtíðar eigi sömu tækifæri og núverandi kynslóðir til hagnýtingar auðlindanna og að unnt sé að staðfesta að þannig sé að verki staðið. Fyrirtækið skuldbindur sig til þess að leita farsælla lausna þar sem auðlindanýting í almannaþágu er vegin og metin í samhengi við aðra hagsmuni. Fyrirtækið mun verja auðlindirnar fyrir ógnun og ágangi, vegna þeirrar ábyrgðar sem fyrirtækinu er falið.

Gagnsemi veitna

Framleiðsla fyrirtækisins stuðlar að heilnæmum lífsskilyrðum og tækifærum til umhverfisvænnar starfsemi sem aðgangur að veitum fyrirtækisins er forsenda fyrir. Þessi jákvæðu umhverfisáhrif af starfseminni eru ráðandi þegar ákvarðanir eru teknar um þróun verkefna. Ákvarðanir eru byggðar á því að fyrirtækið setur markið hátt varðandi gæði, afhendingaröryggi og hagkvæmni og birtir greinargóðar upplýsingar um frammistöðu sína og framtíðaráætlanir í þeim efnum.

Áhrif losunar

Starfsemi fyrirtækisins leiðir óhjákvæmilega til þess að efni og orka losna til umhverfisins. Fyrirtækið gætir fyllstu varúðar í starfsemi sinni og stefnir að sporléttri vinnslu og starfsemi. Losun fer því aðeins fram að áhrif á heilsu séu hverfandi og áhrif á umhverfi viðunandi. Fyrirtækið dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda og mengandi efna eins og kostur er og leggur áherslu á rannsóknir og þróun til að geta nýtt bestu mögulegu lausnir í þeim tilgangi.

Áhrif í samfélaginu

Veitur eru stórt fyrirtæki á landsvísu og þar er mikla þekkingu að finna um hagnýtingu jarðavarma, uppbyggingu innviða og aðra þætti í starfsemi fyrirtækisins. Fyrirtækið gefur gott fordæmi, miðlar þekkingu og beitir áhrifum í virðiskeðjunni, sem hvetur til ábyrgrar umgengni við umhverfið, ábyrgrar neysluhegðunar og jákvæðra samfélagsáhrifa, þar á meðal orkuskipta í samgöngum. Veitur nýta stöðu sýna og þekkingu til hvatningar og framþróunar vistvænna samgangna og nýtir innviði og orkustrauma sína til að breikka framboð á lausnum.

Reksturinn

Rekstur fyrirtækisins byggir á skipulegum og öguðum verkum margra starfsmanna í dreifðum starfsstöðvum. Þetta felst meðal annars í því að nýta vel orku og aðföng, vanda til mannvirkja og umgengni um lóðir og lendur, meðhöndla úrgang á ábyrgan hátt og hvetja til vistvænna samgangna. Fyrirtækið vill vera til fyrirmyndar og byggja upp hæfni starfsfólks í þessum efnum.

Stefnan byggir á gildum og heildarstefnu OR og er sett fram til samræmis við eigendastefnu.

[Stefna yfirfarin og samþykkt óbreytt á stjórnarfundi 22. september 2022]